Heklutindur

Heklutindur
Heklutindur


 

Morgunblaðið 21. apríl 1955

Fyrsti happdrættisbátur DAS leggur á hafið, Heklutindi siglt vestur í Djúp.

Síðdegis í gær lagði happdrættisbáturinn Heklutindur upp í sína fyrstu för út á hafið. Var ferð hans heitið til Grunnavíkur við Ísafjarðardjúp, en fjórir ungir menn búsettir þar hafa nýverið keypt bátinn og hyggjast gera hann út þaðan. Hinn glæsilegi farkostur Heklutindur, sem var vinningur í Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna fyrir skömmu, sigldi í gærdag út úr höfninni í Reykjavík áleiðis til Grunnavíkur við Ísafiarðardjúp. Keyptu fjórir Grunnvíkingar bátinn nýlega af þeim, er hann hlaut í vinning í happdrættinu. Kostaði báturinn 95 þúsund kr. Þessir fjórir Grunnvíkingar eru Sigurjón Hallgrímsson, Gunnar Hallgrímsson, Páll Friðbjarnarson og Karl Pálsson.

FULLKOMNASTA TRILLA  Á  LANDINU

Síðan þeir hafa keypt bátinn hafa þeir látið setja í hann talstöð, en dýptarmælir var fyrir í honum. Bátnum er stýrt með vökvastýri. Er þetta vafalaust fullkomnasta trilla á landinu. Báturinn er 5 smál. knúinn Lister dieselvél og gengur 7—8 sjóm.

Rúm er fyrir þrjá menn í káetu í stafni bátsins og þar er einnig olíukynnt kabyssa. Grunnvíkingar láta hið besta yfir bátnum, en þeir hafa að sjálfsögðu farið reynslusiglingu á honum. Segja þeir, að hann láti mjög vel í sjó.


AFLINN LAGÐUR Á LAND Í GRUNNAVÍK

Í ráði er að stunda bæði línuveiðar og skak á bátnum og leggja aflann á land í Grunnavík og jafnvel víðar við Djúpið. Tveir bátar  verða nú gerðir út frá Grunnavík í vor. Þeir þremenningarnir, sem sigla bátnum vestur bjuggust við að verða 30—35 klst. á leiðinni vestur, en þeir fara venjulega siglingaleið. Báturinn var hlaðinn varningi vestur.