Loading...

Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps

Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps

Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps var stofnað 10. mars 1973. Tildrög stofnunar voru þau Náttúrverndarráð sendi 2. febrúar 1973 út tillögur um friðlýsingu Sléttuhrepps og hluta Grunnavíkurhrepps, en svæðið var að lokum friðlýst 1975. Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna varðandi réttindi þeirra í þessum fyrrum hreppum. Fyrsti formaður félagsins var Guðni Jónsson frá Sléttu, Sigurjón Hilaríusson frá Steinólfsstöðum var ritari, Þorvarður Jónsson frá Látrum og Neðri-Miðvík var gjaldkeri og meðstjórnendur voru Arnór Stígsson frá Horni og Magnús Guðmundsson frá Þverdal. Varamenn voru Guðmundur Sigurðsson frá Hesteyri, Þórður Júlíusson frá Fljótavík og Magnús Reynir Guðmundsson frá Hesteyri.

Félagsmenn geta þeir orðið, sem eiga réttindi yfir fasteignum í fyrrum Sléttu- og Grunnavíkurhreppi, það er jörðum, einstökum lóðum og húsum. 

Grunnavíkurhreppur sameinaðist Snæfjallahreppi 1. janúar 1964, sem aftur sameinaðist Ísafjarðarkaupstað 11. júní 1994. Sléttuhreppur var sameinaður Ísafjarðarkaupstað 14. desember 1995 með lögum frá Alþingi. Árið 1996 sameinaðist Ísafjarðarkaupstaður 5 öðrum sveitarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum, fékk hið sameinaða sveitarfélag heitið Ísafjarðarbær.

Landeigendafélagið á 3 fulltrúa í Hornstrandanefnd sem er samstarfsnefnd um Hornstrandafriðlandið.