Sundlaugin í Reykjarfirði

Morgunblaðið í ágúst 1988

Úr grein eftir Jónu Valgerði Kristjánsdóttur í tilefni 50 ára afmælis sundlaugarinnar

Frumkvöðull að byggingu laugarinnar var Jóhannes Jakobsson í Reykjarfirði. Þegar hann var 12 ára gamall, voru honum og fleiri unglingum í Reykjarfirði kennd sundtökin. En sundlaug var engin svo ekki gafst mikið færi á að æfa þessa nýju íþrótt. En unglingarnir dóu ekki ráðalausir frekar þá en nú. Með Jóhannes sem fyrirliða, hlóðu þeir stíflugarð fyrir afrennsli volgrar tjarnar sem var í Firðinum og myndaðist þá allgóð sundlaug. Við hana undu þeir sumarlangt, en næsta vor ruddi jökuláin stíflugarðinum burt. En þeir hlóðu hann að nýju og gekk þannig allmörg ár. En nú höfðu ýmsir málsmetandi menn tekið eftir þessu frumkvæði unglinganna í Reykjarfirði og á sýslufundi N-Ísafjarðarsýslu veturinn 1935 fékk sr. Jónmundur Halldórsson prestur á Stað í Grunnavík því til leiðar komið að fjárveiting fékkst til endurbóta á sundlaug í Reykjarfirði og byrjun sundkennslu þar. Hann fékk síðan Jóhannes til að standa fyrir framkvæmdum og byrja kennslu. Jóhannes gekk í ungmennafélag sveitarinnar 1936 og lagði þar fram tillögu um sundlaugarbyggingu. Var samþykkt að tilnefna í nefnd til að undirbúa málið. Í henni áttu sæti Jóhannes Jakobsson, Reykjarfirði, Guðmundur Árnason, Furufirði og Dagbjartur Majasson, Höfðaströnd.

 

Gamla sundlaugin,hún var nefnd Moldarlaug
Gamla sundlaugin,hún var nefnd Moldarlaug

Vorið 1937 voru kosningar til Alþingis, og var haldinn framboðsfundur á Arngerðareyri. Jóhannes sem þá var 19 ára gamall fór á fundinn af forvitni, því ekki hafði hann kosningarétt. Meðal ræðumanna var Vilmundur Jónsson landlæknir, sem þá var að bjóða sig fram til Alþingis í fyrsta sinn. Að fundi loknum gaf hann sig á tal við Jóhannes, og spurði hvað svo ungum manni fyndist að þingmenn ættu helst að gera. Jóhannes svaraði því að lítið vissi hann um það, en sitt áhugamál væri bygging sundlaugar í Reykjarfirði, en til þess vantaði fjármagn. Vilmundur kvaðst heita á hann að ef hann næði kosningu skyldi hann útvega fjárveitingu frá ríkinu til sundlaugarbyggingar. Leikar fóru svo að Vilmundur hlaut kosningu, og um sumarið 1937 veitti Alþingi styrk að upphæð kr. 600 til sundlaugarbyggingar í Reykjarfirði, fyrir forgöngu Vilmundar, og seinna 300 kr. viðbótarstyrk. En Vilmundur gerði ekki þar með endasleppt, hann útvegaði teikningu af sundlaug og sendi sement með vitaskipinu til Reykjarfjarðar síðla sumars. í bréfum sem hann skrifaði Jóhannesi í júlí og ágúst sama ár, hvetur hann til að vel verði vandað til byggingarinnar, grafið vel fyrir og að notuð verði næg járnbinding í steypuna og efnið verði að vera fyrsta flokks.

Um haustið þegar sumarverkum lauk í Reykjarfirði var hafist handa og unnið var eins lengi og hægt var fram eftir hausti. Næsta vor hófust framkvæmdir að nýju og lokið við byggingu sundlaugarinnar. Og 2. júlí 1938 rann upp sá langþráði dagur, sundlaugin var vígð að viðstöddum 73 gestum. Og næsta dag hófst sundnámskeið með 25 nemendum. Landeigendur í Reykjarfirði gáfu land undir laugina. Jóhannes stóð fyrir byggingu hennar og naut dyggilegrar aðstoðar Guðfinns bróður síns. Mikið var gefið af vinnu við bygginguna, ekki síst af þeim Reykjarfjarðarbræðrum. Mun þar vera um að ræða meira en 100 dagsverk. Nokkrir sveitunga þeirra lögðu einnig fram vinnu, sem í flestum tilfellum var unnin endurgjaldslaust, en það sem greitt var af vinnulaunum greiddi Jóhannes sjálfur, því fjárveiting Alþingis fór eingöngu til efniskaupa.

Við sundlaugarvígsluna árið 1938,lengst t.v. eru Jakob Jensson í Reykjarfirði og sr. Jónmundur Halldórsson
Við sundlaugarvígsluna árið 1938,lengst t.v. eru Jakob Jensson í Reykjarfirði og sr. Jónmundur Halldórsson

Síðar voru byggðir búningsklefar við laugina, sem nauðsynlegt var ekki síst vegna þess að á hverju vori fóru þar fram sundnámskeið fyrir börn úr hreppnum. En búningsklefarnir hafa fyrir löngu orðið að falla fyrir tímans tönn og voru hreinsaðir burt fyrir mörgum árum. Þá var líka orðið sýnt að gera þyrfti átak til að endurbyggja sundlaugina, því steypan, þó góð væri árið 1938, var farin að láta á sjá, og botninn tekinn að leka. Og enn sem fyrr var það Jóhannes sem vakti athygli á málinu, skrifaði greinar í blöð, og benti á að úrbóta væri þörf. Hann fékk þannig bæði loforð um einhver framlög frá velunnurum laugarinnar og skátarnir á Ísafirði lofuðu vinnu, þegar verkið hæfist. Sumarið 1986 var sundlaugin endurbyggð. Lögðu menn úr Hjálparsveit skáta á Ísafirði leið sína norður í Reykjarfjörð og hjálpuðu til við verkið. Gekk það bæði fljótt og vel. Bakkar laugarinnar voru svo pússaðir og tyrft í kring, og laugin máluð hvít. Þar með var hún aftur tilbúin að taka á móti gestum sem leið eiga um Hornstrandir, enda leggja margir leið sína í Reykjarfjörð og njóta þar ókeypis hvíldar og hressingar í þessari perlu Hornstranda. Hvít og glampandi fögur með létta gufubólstra sem stíga upp úr hreinu og tæru laugarvatninu, því brennisteinslykt finnst ekki, mun sundlaugin næstu áratugina hvíla margan þreyttan ferðalang.

Ekki er hægt að ljúka svo þessari frásögn að ekki sé getið ábúenda í Reykjarfirði, sem ár eftir ár meðan búið var í Firðinum tóku á móti öllum nemendum sem sóttu sundnámskeiðin á vorin. Oft var þá fjölmennt í heimili hjá Matthildi og Jakobi í Reykjarfirði, sem höfðu flesta nemendur í fæði og  húsnæði meðan námskeiðin stóðu. Má t.d. nefna að þegar sundlaugin var vígð árið 1938 tóku þau á móti öllum þeim gestum sem þangað komu og allir voru í mat og kaffi, og nokkrir gistu.

Nýleg mynd af sundlauginni í Reykjafirði
Nýleg mynd af sundlauginni í Reykjafirði