Úr handraða Sigurvins Guðbjartssonar

Grunnvíkingar að undirbúa Flæðareyrarhátíð 1984


Frá Ísafirði var farið,til Flæðareyrar með báti,

undirbúa þar átti útihátíð með látum,

í  þessum báti var aðeins ættgöfugt fólk að norðan

og örfáir gestir,sem ekki eru nefndir hérna.


Þar var Ingi og Óskar með ótal brandara fína,

Albert og Eddi sæti,með ungu konuna sína,

Óli Friðbjörns og Eyjólfs,einnig Brynjar og Rúnar,

Stína Alla og Stonni,stráklingar tveir og Nonni.


Úr  Víkinni voru líka vaskir kappar og þekktir.

Gunnar Leós „hinn ljúfi“ leiddi hersingu slynga.

Þar var var Bía og Bjarki,bæði Sigurvin og Árni,

skáldin sem enginn skilur,skálkar hálf fálkalegir.


Áður en út var haldið,undirbúin var förin,

allskonar efni gefnu,út í bátinn var safnað.

Olíutankar tómir,tunnur af ýmsu fylltar,

ryðgaðar keðjur og kaðlar og kamarseturnar gylltar.

Einhver ósköp af timbri,sem átti að sumra hyggju,

að heita vel fenginn viður og vera góður í bryggju.


Báturinn fjarska fullur,af fólki og allskyns dóti,

öslaði Djúpsins öldur,út og norður var haldið.

Í þetta eina sinni aldrei við til þess fundum,

hve leiðin til Leirufjarðar löng er og krókótt stundum.


Svo var málað og múrað og meitlað og sagað og grafið.

kamrarnir reistir og reyndir og rykið af öllu skafið.

Étin heil kynstur af kjöti og kannski eitthvað súpu glundur,

loks eftir dálaglegt dagsverk dulítill festur blundur.


Ekkert er um að segja

allir að lokum sneru

aftur til Ísafjarðar

eftir sólarhrings veru.


Ferðin gekk vel að vanda

vel sást til allra stranda.

Aldrei var ælt né spúið,

ævintýrið er búið.

Sigurvin Guðbjartsson 1984Yndæla fólk.

Þið sem flykkist á Flæðareyri,

fjórða hvert ár,

þegar allsherjar hátíð er sett.

Öllum finnst gaman,

það koma alltaf fleiri og fleiri,

því fjörið er geggjað

og skapið er ólgandi létt.


Söngglaða fólk.

Þið sem saman í hrifningu syngið,

sönginn um það,

hversu Strollan gekk hólana flott.

Málglaða fólk.

Sem á kvöldin í kunningja hringið

og hvíslið í símtólið;

mikið assgoti er koníak gott.


Ástheita fólk.

Þið sem hvort annað kyssið og knúsið

og konurnar strjúkið,

með sérstökum Hrafnfjarðar brag.

Lífsþyrsta fólk.

Þið sem dettið stundum í djúsið

og djammið á sjötíu

langt fram á

þarnæsta dag.


Sigurvin Guðbjartsson 2008


Horft til Jökulfjarða

Í Himnaríki er afarstór útsýnisgluggi,

með eilítið hallandi rúðum,úr tvöföldu gleri.

Og á bak við hann sitja á háfættum hægindastólum,

í hrókasamræðum,íslenskur maður og Drottinn.


Þeir virða fyrir sér einstæða fegurð Íslands,

og efst til vinstri má þekkja norðurpart Vestfjarðakjálkans,

með  drifhvítan jökul og dali með hlíðum svo grænum,

dimmbláa firði,sem roðna í kveldsólarskini.


Og Drottinn brosir kankvís og kinkar kolli.

„Já kanski var þetta besta smíðin min forðum.

Allavega er ósköp fallegt í Fjörðum.

Furðulegt að engir menn skuli búa hér lengur


„En segðu mér nú í trúnaði vestfirski vinur,

hvað vildirðu geta endurtekið af hinu liðna?

Ljúfar stundir sem liggja þér efst í huga,

er lífs þíns dögum þú flettir og horfir til baka?“


Það stóð ekki á svari“Um Djúpið er dýrlegt að fara

og dansa á Flæðareyri um sólbjartar nætur.

Vinahópnum að heilsa og horfa á fólkið,

sem hittist þarna,brosir og kyssist og hjalar“

„Ég vil finna ylinn sem örlítið tár veitir jafnan.

Örmunum vefja konur,svo mjúkar og hlýjar.

Þetta vildi ég lifa upp aftur og aftur,

því aldregi leið mér betur,fyrr eða síðar !“


„En ætli ég verði ekki hjá þér Drottinn,

nokkrum ljósárum lengur.

Mér líkar svo vel þetta útsýni,úr glugganum hérna“.


Sigurvin Guðbjartsson