Loading...

Halldór B. Halldórsson

Halldór B. Halldórsson gaf Ungmennafélaginu Glað í Grunnavíkurhreppi lóð undir húsið á Flæðareyri með gjafabréfi dagsettu á Ísafirði 14. ágúst 1933, en hann var eigandi jarðarinnar Höfða. Segir hann í bréfinu að lóðin sé 2500 fermetrar á svo nefndri Flæðareyri, og að þess utan hafi félagið frían fimm metra breiðan veg til sjávar frá lóðinni.   Einnig gaf Halldór tuttugu poka af sementi til byggingar hússins.  

Halldór Benjamín Halldórsson var ættaður úr Jökulfjörðum, fæddur á Dynjanda 30. júlí 1894. Foreldrar hans voru Halldór Jakobsson og Kristín Jakobsdóttir. Hann ólst upp hjá Benedikt Kr. Benediktssyni og Gunnvöru Rósu Elíasdóttur á Dynjanda.  Ungur kvæntist hann Hólmfríði Benjamínsdóttur frá Hesteyri. Stuttu síðar fluttist hann til Ísafjarðar, og stundaði sjómennsku um nokkur ár. Síðar tók hann að verka síld og kaupa og jafnframt fékkst hann við kaup á lýsi. Settist að á Grænagarði á Ísafirði, keypti þar hús og síldarstöð. Tókst honum furðu vel að stýra hinn krappa sjó, er mætti þeim er fengust við síldarkaup á þessum árum. Aflaði Halldór sér trausts þeirra er skiptu við hann, enda var hann ráðvandur maður.


Þegar þess er gætt, að Halldór hafði ekki notið þeirrar fræðslu, sem nú á tímum þykir sjálfsögð, hverjum manni, má segja að honum hafi tekist vel að sjá sér farborða. Hann var sagður ávalt hafa eitt hvað nýtt í huga og var furðu laginn að koma því í framkvæmd. Hann þótti manna vinsælastur, greiðvikinn og góðviljaður.


Halldór lést 15. mars 1935 og var jarðsettur í Reykjavík

Velkominn á heimasíðu Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði

Velkominn á heimasíðu Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði

Hér verða birtar tilkynningar s.s. um væntanlega viðburði og eins fréttir og frásagnir af liðnum atburðum á vegum félagsins. Einnig eru hér í rituðu máli og myndum lýst lífi og starfi fólksins sem bjó í Grunnavíkurhreppi. Allar ábendingar um nýtt efni eða leiðréttingar,breytingar og viðbætur um það sem fyrir er eru vel þegnar undir liðnum „ Senda fyrirspurn eða ábendingu“

Gamlar myndir af svæðinu eða íbúum þess eru sérstaklega vel þegnar,þær verða þá skannaðar og endursendar sem fyrst. Þá eru allir þeir sem ættir sínar eiga að rekja til Grunnavíkurhrepps og aðrir velunnarar hvattir til að sækja um inngöngu í félagið hér á síðunni.

Með von um að heimasíðan verði lifandi miðill allra þeirra er unna þessu landssvæði, sjáumst sem flest á Flæðareyri í sumar, kveðja umsjónarmaður

Æskan Apríl 1936

Bréfaskipti

Steinunn Guðmundsdóttir, Oddsflöt, Grunnavík, N-Ísafjarðarsýslu, óskar eftir að skrifast á við stúlkur á aldrinum 10-12 ára, í Reykjavík og á Austfjörðum.

Sigríður Tómasdóttir, Stað, Grunnavík, N -Ísafjarðarsýslu, óskar eftir að skrifast á við stúlkur á aldrinum 12- 14 ára, í Reykjavík og í N-Þingeyjarsýslu.

Majas I. Majasson, Höfðaströnd, Grunnavíkurhreppi, N-Ísafjarðarsýslu, óskar eftir að komast í bréfasamband við dreng eða stúlku, á aldrinum 15-17 ára, á Akureyri eða Reykjavík.

Halldóra Alexandersdóttir, Dynjanda, Jökulfjörðum, N.-Ísafjarðarsýslu, óskar eftir að skrifast á við pilt og stúlku (15—18 ára) einhversstaðar á landinu.

Rannveig Jóhanna Einarsdóttir, Kollsá, N.-Ísafjarðarsýslu, óskar að skrifast á við stúlkur 14—16 ára, hvar sem er á landinu.

Kristín Bjarney Ólafsdóttir, Furufirði, Grunnavikurhreppi., Ísafjarðarsýslu, óskar eftir að skrifast á við dreng eða telpu á aldrinum 14—15 ára, einhversstaðar á landinu.

Jakob Hagalínsson, Dynjanda, Grunnavíkurhreppi, N.-Ísafjarðarsýslu, og Bjarni Þ. Alexandersson, sama stað, óska eftir að komast i bréfasamband við stúlkur á aldrinum 16—20 ára, má vera hvar sem er á landinu.

Jóhanna Alexandersdóttir, Einar Alexanderson, Dynjanda, Grunnavíkurhreppi N.- Ísafjarðarsýslu, óska eftir að skrifast á við pilta og stúlkur á aldrinum 14—18 ára, einhversstaðar á landinu.

Svanfriður V. Jónasdóttir, Reykjarfirði, Grunnavíkurhreppi, N.-Ís. (13—16 ára).

Einar Ólafsson, Furufirði N.-Ís. (13— 15). Ólína Jónsdóttir, Reykjarfirði, Grunnavikurhreppi, N.-Ís. (13—14). Benedikt Alexandersson, Ingi Jóhannesson og Páll Jóhannesson, allir á Dynjanda, Jökulfjörðum (12—15).

Guðfinna Ingunn Jónasdóttir, Bolungarvík og Magna Ólafsdóttir, Furufirði, báðar í Grunnavíkurhreppi, N.- Ísafjarðarsýslu, óska eftir bréfasambandi við pilta eða stúlkur, hvar sem er á landinu.

Ketilriður Jakobsdóttir, Reykjarfirði, Grunnavíkurhreppi. N.-Ísafjarðarsýslu, óskar eftir að skrifast á við 14—15 ára gamla stúlku, einhversstaðar á landinu.

Ingigerður G. Guðjónsdóttir, Þaralátursfirði, Grunnavíkurhreppi, N.-Ísafjarðarsýslu, óskar eftir að skrifast á við dreng eða telpu (13 ára).

Jóhanna E. Ólafsdóttir, Furufirði, Grunnavíkurhreppi, N.-Ísafjarðarsýslu óskar að komast í bréfasamband við dreng eða stúlku á aldrinum 13—15 ára.

Laufey Oddmundsdóttir Höfðaströnd, Grunnavíkurhreppi., Einhildur Alexandersdóttir og Rósa Jóhannesdóttir, báðar á Dynjanda í Jökulfjörðum,

Ragnar Jakobsson (12—14), Kjartan Jakobsson (14—15), Magnús Jakobsson (12 —13), allir í Reykjarfirði, Grunnavíkurhreppi, N.-Ís.;

Halldór Friðbjörnsson, Grunnavík, N.-Ís. (11-12);

Jensína Jónasdóttir, Höfðaströnd, Grunnavíkurhreppi., N.-Ís.

Blaðið BB á Ísafirði 1991

Síðustu göngur í Jökulfjörður

Páll Jóhannesson leitarstjóri og bóndi
Páll Jóhannesson leitarstjóri og bóndi

Helgina 7. og 8. september sl. voru síðustu fjárleitir í hinum gamla Grunnavíkurhreppi í Jökulfjörður. Páll Jóhannesson bóndi í Bæjum á Snæfjallaströnd, hefur löngum átt fé, er gengið hefur sumarlangt í grænum högum eyðibyggða Jökulfjarða. Fé þetta er að stofni til undan þrem ám, sem ættaðar voru frá Dynjanda, en faðir Páls flutti þaðan ásamt fjölskyldu sinni að Bæjum 1948. Flutti fjölskyldan bústofn sinn  með sér og var féð að norðan að mestu skorið niður smátt og smátt. Loks urðu eftir af þessum stofni þrjár ær sem Páll ól alltaf undan. Sótti þetta fé sem smalað var nú, er að meginstofni undan þessum ám. Þetta eru mjög erfiðar smalamennskur, sagði Páll í Bæjum. Við höfum verið að smala landsvæði í Jökulfjörðum,sem áður lágu undir 16 býli. Flest þeirra voru í byggð langt fram á fimmta áratug.

Hreppurinn fór endanlega í eyði 1962. Við förum í þessar leitir á bátum frá Bæjum og Ísafirði. Menn eru settir í land í Grunnavík. Þaðan er smalað inn Staðardal og yfir Staðarheiði og aðrir ganga Staðarhlíð. Síðan hittast hóparnir upp af Kollsá. Þaðan er haldið inn Sveitina, sagði Páll, og Höfðastrandadalur og Höfðadalurinn teknir í leiðinni. Nokkrir smala Dynjandisdalinn og Múladalinn og allt féð rekið í girðingu fyrir innan Dynjandisá.

Aldrei hefur þurft að sækja kindur norður yfir jökulárnar í Leirufirði. 

Annan daginn er hleypt út úr girðingunni og smalað fjallið fram að Drangajökli. Mannskapurinn kemur saman með féð inn við jökulinn. Við rekum féð síðan yfir Öldugilsheiði yfir í Unaðsdal. Páll sagði einn smalann hafa verið með skrefmæli og hafi vegalengdin sem hann hafi gengið verið 50 km. Hann gekk þó ekki lengstu leiðina. Ég botna ekkert í þessum mönnum, sem koma ár eftir ár, að hjálpa okkur í þessum feikilega erfiðu leitum, sagði Páll. Páll sagði þetta vera síðustu göngur í Jökulfjörður.

Flutt úr Grunnavík í nóvember 1962

Tekið saman úr tveimur blaðaviðtölum við Hallgrím Jónsson

Tíminn 11. nóvember 1962 og  Morgunblaðið 13. nóvember 1962

Blaðið átti tal við Hallgrímur Jónsson frá Sætúni í Grunnavík, en hann var síðasti hreppstjóri þeirra Grunnvíkinga, sem fluttist til Ísafjarðar á fimmtudaginn ( 8.nóvember 1962). Við vorum 17, sem komum til Ísafjarðar á fimmtudaginn; nokkrir voru ekki heima, en alls voru 22 heimilisfastir í Grunnavík. Af þeim 17 sem til Ísafjarðar komu voru 9 börn undir 16 ára aldri, í allt voru fjölskyldurnar 6. Þeir sem fluttu auk Hallgríms og fjölskyldu voru Ragúel Hagalínsson og Helga Stígsdóttir, 4 manna fjölskylda, bróðir hans Jakob og Sigríður Tómasdóttir, þrennt í heimili. Ein hjón öldruð, Tómas Guðmundsson og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir, Grímur Finnbogason og systir hans Guðrún, bæði fullorðin. Marinó Magnússon  og Margrét Hallgrímsdóttir, 4 manna fjölskylda fara héðan til Ólafsfjarðar.

Öllu fénu um 1000 var slátrað,ef frá eru taldar nokkrar kindur sem seldar voru í næsta hrepp.  Það var í fyrravetur, sem við tókum ákvörðun um það að flytjast öll á brott úr sveitinni okkar. Tún kól mjög illa í fyrrasumar og auðséð var, að enn erfiðara yrði með heyskapinn. Þá þjakaði heilsuleysi fólkið og eins og samgöngum er háttað er ekki hlaupið að því að ná í lækni, ef eitthvað bjátar á. Já, samgöngumálin voru erfið hjá okkur. Fagranesið kom einu sinni í viku. Við vorum ekki í akvegasambandi við umheiminn, og ekki fyrirsjáanlegt, að úr því yrði bætt. Það væri sjálfsagt hægt að  leggja veg í Grunnavík, en hann kæmi bara aldrei að fullum notum, þetta er svo mikill óravegur til Ísafjarðar fyrir Djúpið. Það væri hægt að útbúa flugvöll fyrir litlar vélar í Grunnavík og stærri vélar inni í Leirufirði, en það yrði aðeins hægt að nýta þá yfir sumarmánuðina.

Já, það er ákaflega snjóþungt í sveitinni okkar, í gær sá þar hvergi á dökkan díl, en sumarbeit er þar ákaflega góð. Það er einnig ákaflega mikil berjatekja í Jökulfjörðunum, þar vaxa alls konar ber. Áður fyrr var mikil fiskgengd í Jökulfjörðum, en nú hefur fiskurinn lagst frá. Það hefur ekki verið mikill reki í Jökulfjörðunum, en á Ströndum er mikill reki. Það er ekki mikil veiði í ánum í Jökulfjörðum, en kunnugir telja, að auðvelt sé að rækta þar lax. Jú, þeir eru byrjaðir að kaupa upp jarðir. Það voru keyptar tvær í Leirufirði, Leira og Kjós. Þær fóru nú fyrir lítið, voru seldar saman fyrir 35 þúsund, en það eru ekki hús á jörðunum. Vissulega kveðjum við sveitina okkar með söknuði. Forfeður sumra okkar hafa búið þar mann fram af manni. En við þessu er víst ekkert að gera, unga fólkið vill ekki vera kyrt, og vissulega eru örðugleikarnir margir. Það er ekki gott með ræktun. Landið er grýtt og svo eru blautar mýrar, en þær hefði verið hægt að ræsa fram, ef við hefðum fengið stórvirkar vélar, en þær hafa ekki fengist. Já, það var víst ekkert annað að gera.

Heklutindur


 

Morgunblaðið 21. apríl 1955

Fyrsti happdrættisbátur DAS leggur á hafið, Heklutindi siglt vestur í Djúp.

Síðdegis í gær lagði happdrættisbáturinn Heklutindur upp í sína fyrstu för út á hafið. Var ferð hans heitið til Grunnavíkur við Ísafjarðardjúp, en fjórir ungir menn búsettir þar hafa nýverið keypt bátinn og hyggjast gera hann út þaðan. Hinn glæsilegi farkostur Heklutindur, sem var vinningur í Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna fyrir skömmu, sigldi í gærdag út úr höfninni í Reykjavík áleiðis til Grunnavíkur við Ísafiarðardjúp. Keyptu fjórir Grunnvíkingar bátinn nýlega af þeim, er hann hlaut í vinning í happdrættinu. Kostaði báturinn 95 þúsund kr. Þessir fjórir Grunnvíkingar eru Sigurjón Hallgrímsson, Gunnar Hallgrímsson, Páll Friðbjarnarson og Karl Pálsson.

FULLKOMNASTA TRILLA  Á  LANDINU

Síðan þeir hafa keypt bátinn hafa þeir látið setja í hann talstöð, en dýptarmælir var fyrir í honum. Bátnum er stýrt með vökvastýri. Er þetta vafalaust fullkomnasta trilla á landinu. Báturinn er 5 smál. knúinn Lister dieselvél og gengur 7—8 sjóm.

Rúm er fyrir þrjá menn í káetu í stafni bátsins og þar er einnig olíukynnt kabyssa. Grunnvíkingar láta hið besta yfir bátnum, en þeir hafa að sjálfsögðu farið reynslusiglingu á honum. Segja þeir, að hann láti mjög vel í sjó.


AFLINN LAGÐUR Á LAND Í GRUNNAVÍK

Í ráði er að stunda bæði línuveiðar og skak á bátnum og leggja aflann á land í Grunnavík og jafnvel víðar við Djúpið. Tveir bátar  verða nú gerðir út frá Grunnavík í vor. Þeir þremenningarnir, sem sigla bátnum vestur bjuggust við að verða 30—35 klst. á leiðinni vestur, en þeir fara venjulega siglingaleið. Báturinn var hlaðinn varningi vestur.