Loading...

Þjóðsögur og sagnir úr Grunnavíkurhreppi

Maríuhorn- Maríualtari

Maríualtari-Maríuhorn
Maríualtari-Maríuhorn

Fremsti hnúkur Staðarfjalls heitir Maríuhorn. Í fyrndinni áttu að búa ung hjón í Hlössum,en það er hár sjávarbakki beint fyrir neðan hornið. Voru ungu hjónin iðin og sparsöm og komust fljótlega í álnir,en áttu engin börn. Hafði unga konan,sem var trúuð mjög,beðið til Guðs,en ekki fengið bænheyrslu. Dettur henni þá í hug að biðja Maríu mey.  En þar sem hún hafði heyrt,að því hærra,sem hún stæði,þegar hún segði bænir sínar,því fljótar kæmust þær til himna,klifrar hún upp á fjallstindinn. Hleður hún þar altari og hirðir ekki um,þó að hendur hennar verði blóðrisa,spennir svo blóðugar greipar sínar og biður Maríu Jesú móður að bænheyra sig.

Kemst María mey við af trú og fyrirhöfn konunnar,stígur niður úr hásæti sínu,laust altarið með gullsprota sínum og er það síðan heilagur staður. Og hver sá,sem biðst þar fyrir í sannri trú,fær bænheyrslu. Heitir það síðan Maríuhorn og Maríualtari. En unga konan varð þunguð og fæddi dóttur,sem María var skírð og varð hún mæt kona og formóðir margra merkra Grunnvíkinga.

Aðrar sagnir herma,að á Maríuhorni hafi mönnum verið blótað áður en kristni var lögtekin.