Friðlandið á Hornströndum - Tilmæli til ferðaþjónustuaðila
Umhverfisstofnun hefur sent tilmæli til ferðaþjónustuaðila um að takmarka ágang innan friðlandins að vori, hausti og eftir langvarandi votviðri.
Almenn tilmæli sem ná yfir allt friðlandið fela í sér að ekki sé farið með fjölmennari hópa en 20 einstaklinga á viðkvæmustu tímunum, að göngustafir séu notaðir í hófi og farið sé eftir viðmiðunarreglum um refaskoðun.
Sértæk tilmæli ná yfir Miðfell í Hornvík, en þar skal ekki fara með fjölmennari hópa en 10 einstaklinga.
Tilmælin verða endurskoðuð eftir því sem tilefni gefur til.
Bréf Umhverfisstofnunar:
Friðlandið á Hornströndum - Tilmæli til ferðaþjónustuaðila
Umhverfisstofnun fer með umsjón friðlýstra svæða skv. 2. mgr. 13. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 varðandi stjórnun náttúruverndarmála.
Hornstrandir eru friðland skv. auglýsingu um friðland á Hornströndum nr. 332/1985 í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingunni er skylt að ganga þannig um að ekki sé spillt lífríki, jarðmyndunum og mannvirkjum, sbr. 4. gr. ofangreindrar auglýsingar.
Umhverfisstofnun fer með umsjón friðlandsins á Hornströndum og hefur eftirlit með umferð um friðlandið, metur ástand og stuðlar að verndun menningarminja, gerir greiðfærar gamlar götur og viðheldur vörðum skv. 5. gr. auglýsingar nr. 332/1985.
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994 er óheimilt að eyðileggja greni eða hafa þar óþarfa umgang.
Ástandsúttekt:
Götur/gönguslóðar
Umhverfisstofnun metur það svo að veruleg hnignun hafi átt sér stað á ástandi gönguleiða í landi Horns í Hornvík innan friðlandsins á Hornströndum, n.t.t. á slóðum við Miðfell og í Miðdal frá Svaðaskarði og fram að Stóðhlíðarvatni. Aðrar gönguleiðir innan friðlands Hornstranda hafa staðið betur af sér aukinn ágang gesta.Lífríki
Mikil aukning er í skipulagðar skoðunarferðir gagngert til þess að upplifa nánd við tófuna inna friðlandsins á Hornströndum. Ábúðarþéttleiki tófunnar á austanverðu friðlandi Hornstranda og við Hornbjarg er með því mesta sem þekkist og því rík aðgæsluskylda sem hvílir á þeim sem fara um svæðið. Tófan er friðuð innan friðlands Hornstranda og er allur óþarfa umgangur óheimill við greni skv. 1. mgr. 12. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.Tilmæli:
- Umhverfisstofnun beinir þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að fara ekki með fleiri en 20 einstaklinga í skipulagðar hópferðir um friðlandið á Hornströndum þegar gróður, lífríki og gönguslóðar eru viðkvæmir fyrir, þ.e. að vori, hausti og/eða eftir langvarandi votviðri, nema að höfðu samráði við starfsmenn friðlandsins.
- Umhverfisstofnun beinir þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að fara ekki með fleiri en 10 einstaklinga í skipulagðar hópferðir yfir Miðfell í landi Horns þegar gróður, lífríki og göngustígar eru viðkvæmir fyrir, þ.e. að vori, hausti og/eða eftir langvarandi votviðri, nema að höfðu samráði við starfsmenn friðlandsins.
- Umhverfisstofnun beinir þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að göngustafir verði ekki notaðir í skipulögðum ferðum um friðlandið á Hornströndum nema nauðsyn beri til.
- Umhverfisstofnun beinir þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að virða viðmiðunarreglur um refaskoðun sem settar hafa verið fram af Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Melrakkasetri Íslands. http://ust.is/hornstrandir
- Umhverfisstofnun beinir þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að sýna aukna ábyrgð í návist tófunnar innan friðlandsins á Hornströndum.
Umhverfisstofnun mun endurskoða ofangreind tilmæli eftir því sem ástand gróðurs, lífríkis og göngustíga gefur tilefni til, en ávallt er hægt að leita upplýsingar um ástand svæðisins hjá sérfræðing friðlandsins eða starfandi landvörðum.
Komi til þess að tilmæli Umhverfisstofnunar verði ekki virt hefur stofnunin heimild til takmörkunar á umferð um svæðið sbr. 25. gr. og 25. gr. a. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 auk 4. gr. auglýsingar nr. 332/1985 um friðlandið á Hornströndum.
Frekari upplýsingar gefur sérfræðingur Umhverfisstofnunar í síma 591-2000 eða í netfangið hornstrandir@umhverfisstofnun.is
Virðingarfyllst
Jón Smári Jónsson Ólafur A. Jónsson
Sérfræðingur Sviðstjóri