Hugleiðingar um umferð vélknúinna ökutækja á Hornströndum

Sigurður Jónsson eigandi og skipstjóri hjá Aurora Arktika sendi m.a. bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar erindi á dögum og var það rætt í bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Umræðuefnið var umferð vélknúinna ökutækja og hugsanleg þyrluferðaþjónusta. Pistill Sigurðar fylgir hér að neðan.

Góðan dag og gleðilegt sumar!

Með þessu stutta skeyti vildi ég ræða aðeins umferð vélknúinna ökutækja á Hornströndum og viðra áhyggjur mínar af þróuninni þar. Þetta er í sjálfu sér ekki ætlað neinum sérstökum og kannski tilviljun á hverja þetta er
stílað!

Skv. reglugerðinni um friðlandið er umferð vélknúinna ökutækja bönnuð utan merktra slóða. Víðtæk sátt hefur verið um þetta meðal landeigenda og ferðamanna og fáir orðið til að brjóta þessar reglur. Undantekningar hafa verið fáar og helst varðandi mjög takmarkaðan akstur húseigenda á fjórhjólum eða litlum traktorum frá fjöru og til sumarbústaða. Í öðru lagi eru takmarkaðar lendingar lítilla flugvéla á örfáum stöðum þar sem löng hefð er fyrir slíku og í þriðja lagi eru nokkrar vélsleðaferðir á vorin.

Tvennt veldur mér mestum áhyggjum núna:

  1. með þróun í gerð vélsleða komast menn nánast „hvert sem er“ og er fjöldi sleðamanna að stór-aukast og þeir að dreifa sér meira um svæðið (svipað gildir í raun um jeppa) og
  2. þyrlu-útgerðarmenn eru byrjaðir að sýna Hornströndum meiri og meiri áhuga, bæði fyrir sumarferðir og skíðaferðir.


Mín tilfinning núna er að þrýstingur á almennt aukna umferð vélknúinna ökutækja um allt friðlandið sé að aukast og að ákaflega brýnt sé að bregðast strax við því. Nauðsynlegt er að ræða þetta og ná sem víðtækasti sátt um framtíðafyrirkomulag. Eftirfarandi eru mínar skoðanir og hugmyndir sem innlegg í umræðuna. Þessar hugmyndir eru í raun í takt við þá stöðu sem verið hefur undanfarna áratugi og almenn og víðtæk sátt hefur verið um:

  • Áfram verði undirstrikað að ÖLL umferð vélknúinna ökutækja sé bönnuð í Hornstrandafriðlandinu
  • Landeigendur hafi áfram leyfi fyrir mjög takmarkaðan akstur lítilla vélknúinna ökutækja í kringum sumarbústaði sína
  • Áfram verði leyfi fyrir lendingar lítilla flugvéla í Fljótavík. Ekki verði leyft að lenda á öðrum stöðum nema með sérstöku leyfi.
  • Um þyrlur gildi sömu reglur og um aðrar flugvélar, þær megi ekki lenda nema á ofangreindum stöðum.
  • Miklar takmarkanir verði á lágflugi og allt flug nálægt fuglabjörgunum verði bannað.
  • Öll umferð jeppa og annarra bíla verði bönnuð allstaðar, allt árið um kring.
  • Umferð vélsleða verði bönnuð. Takmörkuð umferð landeigenda verði áfram leyfð en takmörkuð við austur-strandirnar. (Bolungarvík-Barðsvík-Hornvík). Engin umferð vélsleða verði leyfð í Jökulfjörðum.


Hornstrandir eru einstakt svæði, ekki bara á landsvísu heldur á heimsvísu. Umferð vélknúinna ökutækja er leyfð nánast um allt Ísland og á Vestfjörðum eru fjölmörg stórkostleg svæði þar sem hægt er að ferðast um á vélknúnum tækjum. Við eigum að hafa þá framsýni að „taka frá“ eitt lítið svæði þar sem náttúran fær að vera í friði og þar sem fólk getur ferðast um á eigin forsendum án mengunar og hávaða frá vélknúnum tækjum.

Vestfirðingar eiga að nýta landkosti sína og bjóða uppá mismunandi aðstöðu fyrir landeigendur og ferðamenn. Ekkert er því til fyrirstöðu að bjóða til dæmis uppá þyrluskíðun og vélsleðaferðir vestan við Djúp þar sem umferð er nú þegar mikil. En allir þurfa ekki að gera allt allstaðar (!)

Með bestu kveðju
SigurðurJónsson
www.Aurora-Arktika.com
Hlíðarvegur 38, 400 Ísafjörður