Mikið vatn í ám og vötnum á Hornströndum
Jón Björnsson landvörður flaug með Herði Ingólfsyni norður í Hornvík í dag, föstudaginn 6. júní. Horníkin er mjög blaut og hluti tjaldsvæðisins er undir vatni. Hafnarskarð, Kjaransvíkurskarð og Þorleifsskarð eru öll fær en brattir snjóskaflar í þeim. Mjög mikið vatn er í öllum ám enda leysir snjó hratt. Hafnarósinn var langt yfir bakka sýna við Kýrvað. Allur innri hluti Fljótavíkur er undir snjó og krapi á vatninu. Talsverður snjór er í innvíkum að norðanverðu og allt niður að láglendi í Hornvík. Aurskriður geta auðveldlega farið af stað þegar hlánar.
Einnig var flogið yfir í gær með Landhelgisgæslunni.
Það var mikið vatn í þeim ám sem sáust og þær langt upp á bakka sína. Snjór er þó yfir flestum ám nær niður á láglendi. Til dæmis var Hesteyraráin undir snjó rétt ofan við byggðina og snjóbrú er við efsta hús (Foss). Stakkadalsósinn var langt yfir bakka sína og vaðið við Stakkadal hafði breytt úr sér. Þá var öll innvíkin ofan Látra á floti og fjöldi tjarna á henni. Benda skal á að þó snjór sé víða yfir ám getur hann auðveldlega brostið undan þungum göngumanni og skal hafa varan á því.
Þrír Kandamenn sem voru göngu milli Hesteyrar og Látra sögðu að færi væri þungt og leiðin seinfær og voru þreyttir. Sú leið er að jafnaði gengin á 4 klst eða minna að sumarlagi en áætla má að ferðatíminn sé nú nær 8 klst. Nær allar vörður á þeirri leið eru undir snjó og sama var um aðrar varðaðar leiðir að ræða. Til að mynda sást engin varða á leiðinni úr Veiðileysufirði í Hafnarskarð. Svæðið er því erfitt yfirferða og ekki vit í að senda óvana göngumenn inn á það. Benda má ferðamönnum á þann kost að tjalda og gera út frá Hesteyri sem stendur.
Sem stendur er vert að benda ferðamönnum sem vilja komast á norðurhluta svæðisins að hefja göngu frá Hesteyri. Það er auðveldara að snúa við til baka á þeirri leið ef færi reynist of erfitt, enda líklegra að fá far af svæðinu frá Hesteyri.
Óvíst er með gönguleiðir á norðanverðu svæðinu, hinsvegar er allt svæðið mjög blautt. Oft er snjór í Skálakamb ofan Hlöðuvíkur og verður það skoðað betur á laugardag.
Afar brýnt er að gefa ferðamönnum réttar upplýsingar um ástand á svæðinu. Það er illfært sem stendur og þarf sennilega hátt í 2 vikur áður en færð verður sæmileg. Það er öryggisatriði að senda ekki fólk, sérstaklega óvænt of snemma inn, jafnt öryggis vegna sem svæðisins og náttúrunnar sjálfrar sem er mjög viðkvæm við þær aðstæður sem nú eru. Stígar sem þegar sjást eru mjög viðkvæmir og þola ekki mikinn ágang. Sama á við um ýmiss tjaldsvæði o.s.frv. Vissulega er erfitt að hemja hluta óþolinmóðra ferðamanna sem vilja hefja göngu sína nú þegar í friðlandinu, en það á samt ekki að hafa meira vægi en öryggi þeirra og náttúrulegt ástand svæðisins.