Mikill snjór á Hornströndum

Frá Jóni Björnssyni landverði Hornstrandafriðlands:

Flogið var yfir Hornstrandir með Landhelgisgæslunni í dag fimmtudaginn 5. júní. Mikill snjór á svæðinu og mjög blautt á láglendi þar sem snjó hefur tekið upp. Þokuruðningur var í helstu fjallaskörðum, en sennilega eru þau þó orðin fær. Hinsvegar eru allar merkingar, vörður og vegir undir snjó. Þannig sást aðeins ein og ein varða á stangli á Innri Hesteyrarbrúnum og aðeins vörður í Hesteyrarskarði sáust á leiðinni milli Látra og Hesteyrar og segir það mikið um snjóalög. Engin varða sást á leiðinni úr Veiðileysufirði í Hafnarskarð. Þrír ungir Kanadamenn voru á bakaleið frá Látrum til Hesteyrar og léttu illa af færðinni, hvort sem var á fjalli í snjó eða á láglendi. Þannig var öll innvíkin ofan Látra á floti og stórar tjarnir víða og hefur landvörður aldrei séð slíkt áður í byrjun júní. Reikna má með því að svæðið verði því enn um sinn erfitt yfirferðar vegna bleytu og snjóa og gera þarf göngumönnum grein fyrir því. Þoka var upp að norðanverðu svæðinu og hefur verið um talsvert skeið enda norðaustanáttir ríkjandi. Áætla má að ef veður haldast góð þurfi svæði enn 10 daga áður en færð verður sæmileg og bleytu taki upp.