Þorvarður Jónsson heiðursfélagi Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps

Matthildur Guðmundsdóttir ritari LSG, Þorvarður Jónsson og Erling Ásgeirsson formaður LSG
Matthildur Guðmundsdóttir ritari LSG, Þorvarður Jónsson og Erling Ásgeirsson formaður LSG
1 af 2

Aðalfundur Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps haldinn í Borgartúni 37 Reykjavík, 27. maí 2013 samþykkti, í tilefni af 40 ára afmæli félagsins, að gera Þorvarð Jónsson, stofnfélaga og stjórnarmann í félaginu, frá 1973 til 2001 og formanni þess frá 1983 til 2001, að heiðursfélaga. Fundurinn þakkaði Þorvarði fyrir vel unnin störf og tryggð við félagið alla tíð. 

Þorvarður Björn Jónsson er fæddur 16. okt. 1928 á Ísafirði. Foreldrar voru Jón Kristjánsson bókbindari og trésmíðameistari á Ísafirði síðar í Reykjavík fæddur í Neðri-Miðvík í Aðalvík og Þorbjörg Valdimarsdóttir fædd í Heimabæ í Hnífsdal.


Þorvarður er rafmagnsverkfræðingur að mennt stundaði nám við Háskóla Íslands og framhaldsnám í Danmörku og Bandaríkjunum. Lengst af starfsævinnar starfaði hann hjá Pósti og Síma sem yfirverkfræðingur og síðar framkvæmdastjóri fjarskiptasviða.


Þorvarður var einnig umsvifamikill í félags- og trúnaðarstörfum ýmiskonar. Hér er ekki staður né stund til að rifja það allt upp nema hvað hann kom að stofnun Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps 1973 og sat í stjórn þess allt til ársins 2001 og sem formaður 1983 til 2001. Eftir það gætti hann hagsmuna félagsins innan Samtaka eigenda sjávarjarða - SES. Öll þessi störf rækti hann af einstakri trúmennsku og vandvirkni.

Fyrir ómetanlegt framlag hans til LSG er hann nú á 40 ára afmæli félagsins kjörinn heiðursfélagi þess.