Loading...

Átthagafélag Sléttuhrepps

Átthagafélag Sléttuhrepps

Kort af Sléttuhreppi
Kort af Sléttuhreppi

Sléttuhreppur er ysti útkjálki landsins að norðvestan. Takmörk hans að norðan og vestan eru sjálft úthafið, að sunnan og að nokkru að suðaustan eru takmörkin Ísafjarðardjúp og Jökulfirðir. Aðeins hinn nyrsti og vestasti þeirra, Hesteyrarfjörður, heyrir Sléttuhreppi til, hinir eru í Grunnavíkurhreppi. Hreppsmörkin á landi geta vart greinilegri verið. Þau eru frá Lás, ysta odda nessins, er skilur Hesteyrarfjörð og Veiðisleysufjörð, eftir hæsta hrygg fjallgarðsins milli fjarðanna, þar til hann mætir öðrum fjallgarði, er skilur Jökulfirði og Hornstrandir. Þá liggja mörkin eftir þeim fjallgarði í austur, allt í Breiðaskarðshnúk upp af botni Lónafjarðar. Þaðan gengur enn fjallgarður til norðurs, og eru hreppsmörk um hann til suðurtakmarka Hornbjargs. Af þessu má sjá að Sléttuhreppur nær yfir nokkurn hluta Hornstranda.

Haustið 1952 fluttust síðustu íbúar Sléttuhrepps burtu. Sveitarfélag, sem tæpum tveimur áratugum áður hafði verið skipað fimm hundruð einstaklingum, var ekki lengur til. Byggðin var auð „eins og slegin guðareiði“. Eftir stóðu mannlaus hús, og kyrrð auðnarinnar hvíldi yfir áðurbyggðum víkum og bólum.


Tveim árum áður en byggðin í Sléttuhreppi fór að fullu í auðn, stofnuðu búsettir Sléttuhreppingar á Reykjavíkursvæðinu Átthagafélag Sléttuhrepps. Tilgangur félagsins var að halda tengslum milli þeirra sveitunga, sem þarna höfðu sest að. Þeir vildu hittast og njóta sameiginlegra minninga. Þeim brann í huga að gera eitthvað til þess að vernda tengslin við heimahagana og láta ókomnum kynslóðum í té einhverja vitneskju um það mannlíf, sem lifað hafði verið í eyddri byggð.

Með lögum nr. 131 frá 14. desember 1995 var Sléttuhreppur sameinaður Ísafjarðarkaupstað. Var það m.a. annars til að koma skipulags- og byggingarmálum í viðunandi horf.


Í dag er Átthagafélag Sléttuhrepps virkt bæði á Ísafirði og á höfuðborgarsvæðinu. Á hverju sumri koma hópar Sléttuhreppinga til sinna átthaga með það að markmiði að halda tengslum og þeir hafa verið ötulir við að deila af sinni reynslu til eftirkomandi kynslóða.

Heimildir:
Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason. 1971. Sléttuhreppur - Fyrrum Aðalvíkursveit. Átthagafélag Sléttuhrepps.

Árni Ragnar Árnason. 2000.
Þingmál nr. 118 á 120. löggjafarþingi. Sveitarstjórnarlög (Sléttuhreppur)