Kirkjugarðurinn á Stað í Aðalvík

Á umliðnu hausti hittust þau Guðmunda Óskarsdóttir, Baldur Hreinsson, Ólöf S. Björnsdóttir og Oddur Þ. Hermannsson til að ræða málefni kirkjugarðsins á Stað í Aðalvík. Rætt var um varðveislu og hirðingu garðsins að nýlokinni endurnýjun kirkjunnar. Í framhaldinu var hugmyndin kynnt stjórnum Átthagafélaganna. Vinna og umhirða kirkjugarðsins verður í nánu samráði við sr. Agnesi Sigurðardóttur, prófast í Bolungarvík og Guðmund Rafn Sigurðsson, framkvæmdarstjóra Kirkjugarðaráðs við undirbúning og framkvæmd.

Í stuttu máli sagt er áætlað að vinnan taki 2-4 sumur, (vinnuferðir) en hún mun ráðast af fjölda þeirra sem sinna vilja verkinu. Áætlað er að fara fyrsta vinnuferðina um miðjan júní í sumar. Í þeirri ferð er stefnt að því að slá garðinn, fjarlægja hvönn og huga að gömlum minningarmerkjum, skrá þau og staðsetja. Ef tími gefst til verður hugað að undirstöðu sáluhliðsins en næsta sumar er stefnt að því að endurnýja hliðið og er unnið að drögum þessi. Fyrirmynd sáluhliðsins byggir á hliðstólpum sem fundist hafa og má af þeim ráða í stærð og lögun eldra hliðs. Því miður hefur ekki fundist ljósmynd af gamla sáluhliðinu sem sýnir útlit þess og þætti fengur í, ef einhver lumaði á slíkri mynd.

Einnig eru uppi hugmyndir um að reisa hornstólpa sem undirstrika úthorn garðsins. Á næstu árum þarf að halda áfram að lagfæra og hreinsa, allt ræðst þetta af þáttöku sjálfboðaliða. Að lokum er svo stefnt að því að koma fyrir upplýsingum með legstaðaskrá og helstu staðreyndum um sögu kirkjugarðsins á Stað í Aðalvík. 

Verki þessu mun seint ljúka. Vonandi sjá menn ástæðu til að halda áfram að hirða garðinn um ókomna tíð og að liðnu þessu átaki, til varðveislu á sameiginlegri sögu og Staðarprýði.

Með tilkynningu þessari vill Átthagafélag Sléttuhrepps vekja áhuga á verkefninu, kynna fyrirhugaðar framkvæmdir og óska eftir stuðningi þínum. Ef einhverjar athugasemdir eru eða ábendingar sem sveitungar vilja koma á framfæri, má beina þeim til okkar sem nefnd eru hér að ofan.