Ræða Einars K. Guðfinssonar í messu Átthagafélags Sléttuhrepps 2017

Ræða Einars K. Guðfinssonar í messu Átthagafélags Sléttuhrepps í Áskirkju sunnudaginn 14. maí 2017.

Lífsreynsla og þroski kennir manni margt. Sumt af því sem maður ímyndaði sér lítill hnokki að lífið hlyti að snúast um verður skyndilega svo óskaplega fáfengilegt. Annað sem var víðsfjarri huga bernskunnar verður á hinn bóginn smám saman mikilvægara í huga manns. Þannig er allt breytingunum undirorpið; líka í heilabúi manns. Það sem viðtekið var verður skyndilega úrelt, efinn leitar á mann um margt sem ekki stenst áraun reynslunnar. Og þegar maður fullorðnast virðist reynsluheimurinn flytja mann inn á nýjar lendur. Hið hversdagslega sem eitt sinn var, verður bara hluti af sögunni, en hið óræða og fjarlæga er í staðinn hluti af daglegu lífi okkar.

Svona er nú lífið einu sinni, eins og mér fannst gamla fólkið segja þegar ég var að alast upp; fólkið sem var á þeim tíma á svipuðum aldri og ég er núna.

Ég skal vel viðurkenna að ég horfi til minnar bernsku í Bolungarvík með miklum ljóma í augum. Ég tel mér að minnsta kosti trú um að allt sé það þó með miklum raunveruleikablæ. Það var gott að vera barn í Bolungarvík þó flest hafi það nú verið með allt öðrum og frumstæðari róm á þeim tíma en núna. Ég var til dæmis í vikunni að blaða í gegn um gamlar ljósmyndir úr Víkinni ásamt fjölskyldu minni. Og afkomendur mínir vöktu athygli mína á breytingunum. Á myndunum blöstu við holóttar malargötur, húsin voru lágreistari, bílarnir fornfálegri og allt var þetta sem af annarri öld. Sem það náttúrulega var. Við lifum á 21. öldinni.  Þó fannst mér allt mest og best í Bolungarvík og að ekkert gæti staðist Víkinni minni snúning. Ef mér var sagt frá einhverju stóru og miklu sagði ég til þess að hafa eitthvað viðmið: Er þetta stærra en öll Bolungarvíkin? Og þegar svarið var já, sem gat nú alveg hent, þá varð ég alveg gáttaður.

Það sem gekk fyrir sig í Bolungarvík á mínum sokkabandsárum fannst mér eiginlega allt sjálfsagt. Það var til dæmis alveg sjálfsagt að búa við einangrun í samanburði við það sem við þekkjum núna. Öll þjónusta fábreytt,  eða samskipti við umheiminn svo fjarri því sem vð þekkjum. Fábreytni í atvinnulífi og svo mætti áfram telja. Ætti ungt fólk kost á því að ferðast til baka um svona hálfa öld í tímavél kæmi flest á óvart. Og jafnvel við sem lifðum þessa tíma horfum til baka með öðrum augum, en við sáum samtíma okkar.

Í Bolungarvík bjuggu á þessum tíma all nokkrar fjölskyldur sem höfðu orðið að yfirgefa heimabyggðir sínar norðan Djúps, sumar alla leið frá Ströndum norður.  Ég vissi það ekki þá, en skynjaði betur síðar hvernig sú ákvörðun að yfirgefa kæra heimahagana hafði meitlað sér leið inn í hugarheim þessa góða fólks og fylgdi því til æviloka.

Það var eðlilegur og sjálfsagður hlutur fannst manni, að þegar voraði fóru fjölskyldurnar að undirbúa sig til ferðar norður á hinar gömlu heimaslóðir. Geirólfur og Sædísin voru gerð klár, bátarnir málaðir og dregnir fram og sjósettir. Bátarnir voru hlaðnir vistum sem greinilega voru ætlaðar til langrar dvalar. Ragnar og Guðfinnur Jakobssynir ásamt fjölskyldum lögðu í hann norður í Reykjafjörð, þeir bræður og frændur  og fjölskyldur þeirra á Hreggnasa, tóku  stefnuna norður til Bolungarvíkur á Ströndum, aðrir fóri kannski norður í Aðalvík, Grunnavík eða Jökulfjörður og þannig var það um fleiri. Um það bil sem skólinn hófst að nýju að hausti, birtust bátarnir við Ritinn eða Bjarnarnúpinn og renndu svo einum tveimur tímum síðar fyrir brjótshornið. Við hin – ekki síst krakkarnir - stóðum á Brjótnum, fylgdumst með öllu sem fram fór, sáum rekaviðardrumbana sem þeir höfðu slefað með sér að norðan og þeir söguðu niður til margvíslegra nota yfir veturinn.

Það var ekki fyrr en löngu síðar, þegar ég var fyrir löngu orðinn fulltíða maður að ég gerði mér almennilega grein fyrir því hvað þarna hafði verið að gerast. Við Ragnar Jakobsson í Reykjafirði áttum margar skemmtilegar samveru og samræðustundir. Á laugardagsmorgnum lagði ég gjarnan  leið mína til hans og Guðmundar bróður hans inn í Sandbúðirnar sem við kölluðum svo,  þar sem þeir voru við iðju sína; gerðu upp gamla báta eða smíðuðu nytjahluti. Oftast sveigðust samtölin okkar að lífinu fyrir norðan. Og það var á einni slíkri stund sem mér varð þetta allt betur ljóst en áður.  Ragnar var ekki maður sem kaus að hella yfir mann tilfinningum sínum, þó þær bærðust auðvitað með honum eins og okkur öllum. Ein hversdagsleg setning sem hann skaut fram, svo sem ekkert væri eðlilegra, gerði mér það hins vegar skiljanlegt á einni örskotsstundu hvernig hann horfði á málin. Þetta var þegar hann sagði við mig í einhverju samhengi, sem er mér gleymt núna: „Eftir að ég fór að hafa vetursetu hér í Bolungarvík“, sagði hann. Vetursetu í Bolungarvík. Og þá laukst þetta allt upp fyrir mér. Ragnar hafði í rauninni aldrei flust úr Reykjafirði og til Bolungarvíkur. Hann, sem ég hafði auðvitað litið á sem hvern annan Bolvíking og ég vissi að unni byggðinni þar, var þar einhverju leyti gestkomandi í eigin huga. Hann hafði þar bara vetursetu. Hugurinn var fyrir norðan. Það má kannski segja að hann hafi flutt frá Reykjarfirði til Bolungarvíkur í eiginlegum skilningi, en ekki í hinum óeiginlega.

Mér finnst auðvelt að setja mig í þessi spor og sjálfum hefur mér þótt, sem hafi ég bara haft vetursetu í Reykjavík um ríflega aldarfjórðungsskeið  á meðan á þingmennsku minni stóð. Rétt eins og Ragnar í Reykjafirði forðum i Bolungarvík. Jón úr Vör, skáldið frá Patreksfirði, hefur orðað þessa hugsun snilldarlega, svo betur verður ekki gert: „Enginn slítur þau bönd, sem hann er bundinn átthögum sínum. Móðir þín fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í heiminn en þorpið fer með þér alla leið.“ Það er auðvelt fyrir okkur landsbyggðafólkið að samsama sig þessari hugsun þó fæst okkar hefðu haft vit eða getu til að orða hana með svo eftirminnilegum og lýsandi hætti.

Það er sárt að þurfa kveðja heimahagana nauðugur. Og nú hvarflar hugurinn frá heimili mínu í Bolungarvík,  norður yfir Djúp, aftur í tímann, til hennar Guðnýjar Sveinsdóttur, ungrar húnvetnskrar stúlku sem giftist og flutti norður í Aðalvík í byrjun síðustu aldar. Þar bjó hún í um aldarþriðjung. En hún eins og svo margir aðrir stóð í þeim sporum að verða að yfirgefa híbýli sín og flytja í þéttbýlið handan Djúpsins, til Ísafjarðar. Í rauninni átti hún ekki frjálst val. Henni voru þessi örlög búin vegna aðstæðna sem voru langt handan þess sem hún gat haft nokkur áhrif á, hvað þá heldur breytt þeim. Þessi örlög reynast mörgum þungbær. Enginn slítur nefnilega þau bönd sem hann er bundinn átthögum sínum, eins og Jón úr Vör kenndi okkur. Og þegar hún Guðný Sveinsdóttir, löngu brottflutt frá heimkynnum sínum fyrir norðan, stóð í þeim sporum norður í Aðalvík, sem hún hafði markað í jörðina sem hún unni svo mjög, bærðust tilfinningar sem þeir einir kunna að lýsa sem hafa upplifað það sama. Guðný sagði svo frá:

„Seinna, er ég heimsótti Aðalvík – löngu eftir að ég flutti til Ísafjarðar – stóð ég vorkvöld í gróandanum á grunni hússins míns og horfði yfir auðnina. Og ég játa það fúslega, að ég þoldi það ekki.“

Við könnumst við þetta líka úr samtímanum. Hversu sárt hefur okkur ekki reynst að sjá á eftir vinum, skólafélögum, jafnöldrum, samborgurum okkar burtu úr byggðarlögunum og suður. Það nístir í merg og bein að sjá flutningsgám standa við hús nágrannans og vita að brátt slökkna ljósin í húsinu hans. Lítil stúlka eða lítill drengur sér skyndilega á eftir besta vininum eða vinkonunni. Efi sækir á þá sem eftir sitja; á ég líka að stefna suður? Geri ég mistök með því að vera eftir? Er ég að missa af einhverju? Er ég að hafa tækifæri af börnunum mínum með því að kjósa mér búsetu utan sjónfæris við ljósin við sunnanverðan Faxaflóann?

„Þreyjulaus er þráin eins og báran/ þungabrim er léttur súgur fyrst. Því fór líka Selja 16 ára, suður leið í höfuðborgarvist,“ orti önfirski skáldbóndinn snjalli, Guðmundur Ingi Kristjánsson á Kirkjubóli í Bjarnardal í kvæði sem við höfum öll sungið, án þess kannski að gera okkur grein fyrir þeirri mergjuðu þjóðlífslýsingu sem í texta hans felst.

Þetta eru sem sé ekki bara örlög genginna kynslóða. Þetta eru þau örlög sem alltof mörgum eru búin núna, þegar hafa staðið yfir undanfarna áratugi mestu búferlaflutningar á milli landshluta sem Íslandssagan geymir. Flutningar fólks á milli landshluta og landa eru í sjálfu sér ekki óeðlilegir né að öllu óæskilegir. Við lifum á þeim tímum að slíkt verður oft óhjákvæmilegur fylgifiskur. En margir fara hins vegar nauðugir af því að aðstæður  gera slíkt óhjákvæmilegt. En það þarf ekki að vera svo. Sumt eru stjórnvaldsákvarðanir sem taka völdin af fólkinu og við slíkar aðstæður verða búferlaflutningarnir nauð. Þegar mönnum eru bjargirnar bannaðar. Og sárt er til þess að vita að þegar fólk reynir með atorku og af góðum hug að bjarga sér, koma til stundum skjalanna pólitískar eða stjórnsýslulegar ákvarðanir, drifnar áfram af skilningsleysi þeirra sem umræðunni stjórna og sitja í hægu sæti í öryggi höfuðborgarsvæðisins en vilja og deila og drottna yfir örlögum fólksins sem úti á landsbyggðinni búa og vilja þar búa. Þetta finnst okkur fyrir vestan að við upplifum einmitt þessi misserin þegar við reynum að ná vopnum okkar á grundvelli strangra laga og reglna, við uppbyggingu nýrrar atvinnugreinar, fiskeldis, sem við sjáum sem nýja meginstoð í samfélagi okkar, en mætir á tíðum ofsafenginni andstöðu þeirra sem deila ekki með okkur kjörum og hafa aldrei ætlað sér að gera það. Við sjáum þetta líka þegar við viljum byggja upp nútímalegar samgöngur og því er mætt af skilningsleysi á þörfum íbúanna. Má ég nefna Teigskóginn sem dæmi? Og sama máli gegnir þegar við eygjum möguleikana á að nýta vatnsaflið í sátt við náttúruna, okkur til framdráttar líkt og gert hefur verið um allt land. Í öllu þessu birtist okkur hið sama; sjónarhóllinn sem við stöndum á fyrir vestan virðist stundum svo allt, allt annar, en sá sem sumir hér í fjölmenninu nota til þess að skyggnast um gáttir. Fyrir vikið verður sýn manna svo gjörólík á það hvernig við nýtum umhverfið okkar til hagsbóta.

Getur það verið að það þessi veruleiki, þessi gjörólíka sýn á umhverfið, hafi skapað ósýnilegan múr sem torveldar okkur að komast að skynsamlegri, sameiginlegri niðurstöðu um framtíðina í hinum dreifðu byggðum landsins?

Í skarkala nútímasamfélagsins virkar kyrrðin, einveran og fábreytnin oft aðlaðandi. Hið ósnortna verður skyndilega ómetanlegt og við sem höfum lagt leið okkar um Hornstrandir og Jökulfirði getum vel samsinnt því. Sjálfur hef ég gengið frá Ófeigsfirði og norður úr og um Jökulfirðina flesta og séð þetta svæði af sjó. Og enginn verður vitaskuld ósnortin sem fer þar um, dáist að náttúrunni, mætir misjöfnu veðri og nemur söguna sem birtist manni í endurreistum híbýlum, gömlum húsatóftum, eða föllnum beitarhúsum og lærir sagnirnar um fólkið sem þar bjó í þúsund ár. Þennan arf viljum við og eigum að varðveita af miklli virðingu.

En eitt veit ég. Það var ekki kyrrðin, einsemdin eða hið fábrotna líf sem menn lifðu sem laðaði menn til búsetunnar. Ef ekki hefði verið fyrir bjargræðið í sjónum, björgunum og fátæklegum búskapnum hefði byggðin á þessum slóðum staðið ekki í rúm þúsund ár. Á þeim tíma gerðu menn þær kröfur helstar að hafa í sig og á, eiga nokkurn veginn nóg til að bíta og brenna. Þetta var ekki bara hlutskipti fólks fyrir norðan. Þetta var bara lífið sem var lifað á Íslandi í þessi þúsund ár. Það var svo á 20.  öldinni sem þjóðfélagið okkar tók risastökk fram á við. Og það var á 20.  öldinni sem byggðin á ystu ströndum norðan Djúps stóðst ekki lengur. Margir voru örugglega, eins og minn góði vinur, Ragnar í Reykjafirði;  höfðu bara vetursetu í öðrum heimkynnum. En sú tilfinning hefur eðlilega horfið með nýjum kynslóðum.

En um leið og við samsinnum því öll að í gengnum sporum og yfirgefnum byggðum felist verðmæti frá sjónarhóli 21. aldar fólksins sem flest býr í þéttbýli hér syðra, eða annars staðar í landinu, hljótum við að geta sammælst um að íbúar strjálbýlli svæða, jafnt í þéttbýli sem strjálbýli, fái notið staðarkostanna sem þeir búa við. Jafnvel þó það feli í sér röskun og nokkra umbreytingu á umhverfinu.  Í því sambandi þarf þó að fara að með mikilli gát. Það höfum við lært af fenginni reynslu og um það er í sjálfu sér lítill ágreiningur. En við verðum að leita niðurstöðu sem í senn virðir þau sjálfsögðu sjónarmið, en gefur fólkinu í landsbyggðunum líka færi á að skapa sér lífsviðurværi og tækifæri þar sem það vill kjósa sér búsetu. Því enginn okkar vill þurfa að standa í sömu sporum og hún Guðný Sveinsdóttir að heimsækja heimkynni sín með tárvot augun.