Ræða Gunnars Friðriks Birgissonar í messu Átthagafélags Sléttuhrepps október 2023
Kæru kirkjugestir og félagar í Átthagafélagi Sléttuhrepps, komið öll sæl og blessuð.
Ég heiti Gunnar Friðrik Birgisson og fékk þann heiður að segja nokkur orð hér í dag. Þegar Ingibjörg Reynisdóttir hafði samband við mig fyrir nokkru síðan og nefndi við mig hvort ég væri viljugur til að koma og fjalla um Hesteyri í messu hjá Átthagafélaginu, fannst mér það í fyrstu nokkuð bratt í ljósi þess að ég er bara rétt nýlega genginn í félagið, þó faðir minn og systkini hans hafi verið meðlimir í því alla tíð. Það væru því flestir hér hæfari en ég til að segja frá lífinu í Sléttuhreppi á fyrri hluta síðustu aldar. Ég þurfti þó ekki að velta þessu fyrir mér lengi, enda er Hesteyri í Sléttuhreppi sá staður sem er mér kærastur af öðrum á Íslandi og þar á ég óteljandi góðar minningar úr barnæsku.
Ég er svo lánsamur að vera einn af eigendum að Foss húsi á Hesteyri, hús sem áður fyrr gekk oftast undir nafninu Hansínu hús og stendur upp við fossinn.
Áhugi minn fyrir sögu Sléttuhrepps og ættartengslum hefur vaxið mikið með árunum, enda þekkt að Römm er sú taug er til rekka dregur föðurtúna. Það hefur leitt til nokkurs grúsks og lesturs á gömlum bréfum, bókum og öðrum heimildum um lífið í Sléttuhreppi frá aldamótunum 1900.
Mig langar því til að ræða hér í dag um það góða fólk sem bjó í húsinu okkar og hvernig húsið og saga þess tengir okkur Albertsson fjölskylduna, órjúfanlegum tryggðarböndum við Hesteyri.
Saga Albertsson ættarinnar hefst með langa-lang ömmu minni henni Hansínu Elísabetu Tómasdóttur sem skv. Íslendingabók á 529 afkomendur á lífi á Íslandi og ekki er ósennilegt að einhverjir þeirra séu hér á meðal okkur í dag. Alls bjuggu fjórar kynslóðir í húsinu frá árinu 1900. Þau voru:1
- Hansína Elísabet Tómasdóttir langa-lang amma mín
- Albert Benediktsson og Guðrún Benjamínsdóttur – langafi og langamma mín
- Guðmundur Halldór Albertsson og Borghild Albertsson – afi minn og amma
- Og loks faðir minn Birgir Guðmundsson, Albertsson fæddur á Hesteyri 1935, en lést í desember 2009
Hansína fæddist í Grunnavík í maí árið 1850. Henni er ágætlega líst með eftirfarandi orðum: Hún var gestrisin og veitul, stolt og með allríka geðsmuni, en stillti þar öllu í hóf.
Sonja Ólafsdóttir Benjamínsson dvaldi sumarið 1929 hjá ömmu sinni og lýsir henni svona: „Amma var með fastmótaðar lífsskoðanir sem hún miðlaði mér af. Hún hvatti mig til að láta drauminn um skoða heiminn rætast og að gæta þess að mennta mig og fylgja sannfæringu minni.. Amma var mikill kvennskörungur og undir öðrum kringumstæðum hefði hún getað orðið talsmaður jafnréttis fyrir konur. Þegar hún kvaddi mig í lok sumars sagði hún við mig að skilnaði: Konur vilja helst ráða sér sjálfar.“
Hansína giftist Benjamíni Einarssyni útvegsbónda frá Bolungarvík á Ströndum. Þau hófu búskap á Marðareyri í Veiðileysufirði árið 1870 og eignuðust sjö mannvænleg börn2, eitt þeirra var langamma mín, Guðrún Benjamínsdóttir síðar húsfreyja á Hesteyri.
Hansína kynnist erfiðleikum, söknuði og sorg á langri ævi, en Benjamín eiginmaður hennar drukknaði árið 1891 ásamt öðrum manni skammt frá landi utan við Marðeyrarodda og átti einungis nokkra faðma að landi þegar hvöss vindhviða hvolfdi bátnum svo Hansína var dæmd til að horfa uppá slysið. Rúmum tveimur árum síðar giftist Hansína Jóni Guðmundssyni frá Steinólfsstöðum, ungum atorkumanni sem hafði verið vinnumaður hjá þeim hjónum en hann drukknaði einnig eftir einungis nokkurra mánaða hjónaband. Hansína missti einnig son sinn Einar Benjamínsson bónda á Sæbóli í sjóinn í nóvember 1915 í miklu mannskaðaveðri ásamt 5 öðrum Aðalvíkingum. 3
Hansína eignaðist margar góðar vinkonur á Hesteyri. Þar má meðal annarra nefna, Ragnheiði Jónsdóttur eiginkonu Guðbjarts í Heimabæ og systur hennar Kristjönu Jónsdóttur, eiginkonu Sigurðar Pálssonar verslunarmanns og Mörtu Bachman eiginkonu Jóns Þorvaldsonar læknis á Hesteyri.
Hansína lést árið 1933 og hvílir í Hesteyrarkirkjugarði
Langafi minn, Benedikt Albert Benediktsson eða Albert eins og hann var kallaður. Fæddist á Dynjanda í janúar 1866. Faðir hans Benedikt Jóhannesson úr Kvíum drukknaði þegar Albert var fjögurra mánaða gamall.
Þegar Albert var á sautjánda ári árið 1883 fluttist hann ásamt móður sinni og bræðrum til Marðareyrar og réð sig í vinnumennsku hjá Hansínu og Benjamíni. Marðarheimilið varð heimili Alberts um langan tíma og kvæntist Albert , Guðrúnu dóttur Hansínu og Benjamíns. Guðrún langamma mín var hin mesta myndarkona og skörungur. Þau hjón Albert og Guðrún eignuðust átta börn4 sem öll komust til vits og ára og var afi minn Guðmundur Halldór kaupmaður á Hesteyri, þeirra næstelstur, fæddur 1896.
Guðrún og Albert fluttu til Hesteyrar um aldamótin 1900 ásamt Hansínu móður Guðrúnar. Þá höfðu tveir synir Hansínu, þeir Ólafur og Þorvaldur flutt úr hreppnum og notið velgengni í viðskiptum. Þeir keyptu tilsniðið hús frá Noregi og létu senda til Hesteyrar og reistu það á steyptum grunni handa móður sinni. Þangað inn flutti Hansína ásamt dóttur sinni og tengdasyni en nokkru síðar reisti Albert þeim hjónum hús í fjörunni mitt á milli búðarinnar og skólans.
Um Albert langafa minn má lesa í Hornstrendingabók en hann var annálaður glímukappi5 og sjógarpur. Frásögn af landtöku hans undir stálhömrum Grænuhlíðar á sexæringnum Þorski í aftakaveðri árið 1910 lifði lengi meðal Hesteyringa, en þar tókst honum að bjarga bæði bát og mannskap. Þótti það allt með miklum ólíkindum. Albert var maður fremur lítill að vexti en á unga aldri var hann stæltur mjög og hvatlegur, svo að af bar, hann kól ungur að aldri á hvirfli eftir að hafa grafið sig í fönn á Snókafjalli milli Bjarnaness og Lónafjarðar og varð því sköllóttur unglingur. Albert varð aldei ríkur maður, þrátt fyrir sjósókn sína og góðan afla. En langt varð á milli uppvaxtarkjara hans og barna hans. Þann arð gaf sjósóknin honum, að ekki þurfti skorti að kvíða og jafnan mun afkoma hans hafa verið góð.
Albert lést við heyskap í Veiðileysufirði og svo merkilega vill til að Gunnar Hermannsson frá Látrum sem er hér með okkur í dag, sigldi með honum hinstu ferðina frá Veiðileyslufirði til Hesteyrar sumarið 1945, þá 10 ára gamall.
Albert og Guðrún Benjamínsdóttir sem lést árið 1926 hvíla saman í Hesteyrarkirkjugarði.
Víkur þá sögunni að afa mínum Guðmundi Halldóri Albertssyni sem fæddist á Marðareyri 1896 en ólst upp á Hesteyri. Guðmundur fór snemma að bera sig eftir björginni og fór einungis 15 ára gamall með norsku hvalveiðiskipi frá Stekkeyri út í hinn stóra heim. Eldri bróðir hans var þá farinn til Noregs og ekki ósennilegt að það hafi spilað inní ákvörðun hans en tengsl Hesteyringa við Norðmenn voru mikil á þessum árum í gegnum hvalstöðina Heklu á Stekkeyri eins og þekkt er. Afi sigldi á hvalveiðiskipum með Norðmönnum í nokkur misseri en dvaldi þó lengst af í Höfðaborg í Suður-afríku og starfaði þar við hvalskurð í þrjú ár. Þar fékk hann ungur að kynnast erfiðsvinnu, sem og að sjá ýmislegt sem fékk ungan mann til að fullorðnast hratt.
Vorið 1921 á hann einu sinni sem oftar leið um Álasund í Noregi og hittir þar unga konu Borghild að nafni en hún starfaði þá í hannyrðaverslun þar í bæ. Borghild hélt að afi minn Guðmundur væri norskur enda talaði hann lýtalausa norsku eftir áralanga samveru með Norðmönnum. Þau felldu fljótt hugi saman en afi vildi tryggja að hann hefði menntun og fjárhag til að ganga í hjónaband. Hann fór því til Íslands til náms í Verslunarskóla Ísland og lauk því tveimur árum síðar eða fyrir sléttum 100 árum.
Ég rakst á skemmtilegt bréf frá Hansínu ömmu hans sem hún skrifar á Hesteyri þann 1 apríl 1923 og segir honum helstu fréttir.
Herra Guðmundur Halldór Albertsson, Kirkjustræti 18, Reykjavík.
„Elskulegi góði Dóri minn. Guð minn góður í himninum gefi mér af sinni eilífu náð að þessar fáu og ómerkilegu línur mættu hitta þig glaðan og heilbrigðan í jesú nafni. Hjartanlega þakka ég þér fyrir þitt elskulega góða bréf og sendinguna sem að ég fékk frá þér fyrir jólin.
Þú mættir álíta mig tilfinningalausan garm. Ég bið þig að fyrirgefa mér að ég skuli ekki hafa sent þér eina línu. Ég má til að segja þér hvað ég hef mér til afsökunar. Ég var úti í Skáladal í 13 vikur, frá viku fyrir jól en kom aftur þrettánda mars. Elli bróðir þinn eignaðist son í mars, það gekk vel. Ég fór og kom með Braga svo að ég þyrfti ekki að ganga, ég er orðin slæm í fótunum annars má ég heita heilsugóð eftir ástæðum. Héðan er ekki neitt að frétta, allir frískir nema Rósa gamla hún er oft lasin og í rúminu, ég veit ekki hvað það er nú. Guðmundur Jón búinn að kvænast Soffíu Vagnsdóttur. Ætli að Sigurður Pálsson sé ekki búinn að frétta það og hvernig líður nú hjá honum, er aumingja Kristjana frísk? Nú er dauflegt að sjá verslunarhúsin hér, allt lokað og neglt fyrir alla glugga. Allt er breytingum undirorpið.
Kemur þú oft til Ólafs sonar míns? Hvernig tekur hann á móti þér? Hvernig heldur þú að hann hafi það, ætli að þeim líði ekki vel. Eru stelpurnar þeirra frískar? Nú hvernig hefur þú haft það þarna sem að þú ert. Er eins dýrt og hefur verið að leigja og kostur eins dýr, ég hef víst aldrei heyrt neitt um þetta fólk sem að þú leigir hjá. Nú er Ólafur bróðir þinn farinn héðan til Kaupmannahafnar eins og þú munt vera búinn að frétta, ég samgleðst með honum þó að ég sakni hans eins og ykkar en það er ekki neitt, ég fer að verða því svo vön en tíminn er að líða og nú fara þeir að fara í ver eftir páskana, Eiríkur og Gummi bróðir þinn, þeir róa í Skáladal. Ég bið að heilsa Sigurði Pálssyni ef þú sérð hann. Sérð þú nokkurn tíma Ingunni og Sigurjónu? Ég bið þig nú elsku Dóri minn að skrifa mér ef þú færð þennan miðagarm og ef þú getur lesið þetta, það getur ekki heitið annað en krass. Ég bið þig að segja mér margt og mikið í fréttum, enda ég svo þetta og bið þig að fyrirgefa. Vertu svo marg blessaður og sæll og líði þér ávallt vel. Þess óskar þín elskandi amma, Hansína.“
Amma mín Borghild beið af þolinmæði eftir afa mínum Guðmundi í Noregi í þrjú ár. Þau giftu sig þann 20. janúar 1924 í Noregi og komu heim til Hesteyrar um vorið og fluttu þá á neðri hæðina í húsinu hennar Hansínu.
Það voru mikil umskipti fyrir afa að koma til Hesteyrar eftir margra ára fjarveru vorið 1924, en vafalaust varð breytingin mest fyrir Borghild. Aðstæður voru gjörólíkar því sem hún hafði vanist í heimalandi sínu, þrátt fyrir góðar móttökur foreldra og systkina Guðmundar. Ýmsa ytri erfiðleika tókst þó að yfirstíga og fljótlega hóf Guðmundur að versla með ýmsan varning en nokkru áður höfðu hinar sameinuðu verslanir áður Ásgeirsverslun á Hesteyri undir stjórn Sigurðar Pálssonar hætt starfsemi og því var engin verslun á Hesteyri þegar afi kemur frá Noregi.
Sigurður Pálsson sem hér er títt nefndur, var áhrifamaður á Hesteyri og í Sléttuhreppi. Hann var sagður hafa verið mikill stuðningsmaður Hannesar Hafsteins, þá sýslumanns á Ísafirði og mun hafa unnið ötullega að kjöri hans á þing árið 1900.
Sigurður varðveitti mikið safn bréfa sem honum bárust frá íbúum Slétturhrepps sem gefa merkilega innsýn í lífið í hreppnum, sérstaklega á Hesteyri og í Aðalvík. Fróðlegt er að grípa niður í nokkur af fjölmörgum bréfum Jóns Þorvaldssonar læknis til Sigurðar Pálssonar þar sem hann lýsir því þegar afi minn er að taka sín fyrstu skref í verslunarrekstri á Hesteyri, en það er ljóst að það tók Jón lækni nokkurn tíma að taka þennan atorkumikla heimshornaflakkara í góða sátt, enda höfðu þeir Sigurður verslunarmaður og Jón verið nánir vinir um langt árabil og voru m.a. upphafsmenn skólahalds á Hesteyri árið 1904.
Þann 6. apríl 1924 skrifar Jón til Sigurðar: „Guðmundur Halldór er farinn lítið eitt að versla, þykir dýr á sykur, hefur eitthvað smávegis fleira en fær aðallega vörur með Gullfossi á Ísafirði og nokkru síðar eða 20. ágúst sama ár virðist Jón vera að taka afa smám saman í sátt og skrifar Sigurði: Ég hef skoðað vörulistann frá þér og skal reyna að taka eitthvað lítið af því í umboðssölu, annars afhendi ég ef til vill allt Guðmundi Halldóri kaupmanni, vona að hann taki það, því ekki hefur hann of margar vörusortirnar enn.“
Þann 13. september 1928 skrifar Jón Sigurði aftur með þessum orðum: „Guðmundur Halldór farinn að byggja við rauða skúrinn heilmikið hús sem á á vera búð og vöruhús, er komið undir þak og lítur vel út en tekur útsýn frá okkur úr neðri glugganum á fjörðinn, en ég get ekki búist við að hann hafi hugsað um það og skal það fyrirgefið.“
Jón lýsir einnig ömmu Borghild6 svona í einu af sínum bréfum þann 9. Mars 1925: „Hún kvað vera mikið trúuð, syngjandi og spilandi á hverri nóttu fram undir morgun...“
Afi og amma urðu síðar góðir vinir læknishjónanna allt þar til Jón lést árið 1933.
Ungu hjónin afi og amma voru afar samhent og hjónabandið byggt á trú, von og kærleika. Þau eignuðust þrjú börn, Dagnýju fædda 1925, Reidar fæddan 1928 og Birgi föður, minn fæddan 1935. Árin liðu og bjartari tímar voru framundan á Hesteyri með tilkomu síldarbræðslu Kveldúlfs árið 1927 en lítið hafði verið um atvinnu á stöðinni frá því að hvalveiðibann var sett á árið 1915, ef undan er skilin minniháttar síldarbræðsla á vegum norðmanna. Þegar mest lét hjá Guðmundi var hann með verslunarrekstur bæði á Hesteyri og inn á Stekkeyri þar sem hann seldi skipum kost, en gerði jafnframt út bát með bróður sínum Guðmundi Benedikt, frá Látrum og keypti fisk af Hesteyrarbændum árum saman.
Afi og amma voru talsvert með annan fótinn í Reykjavík yfir vetratímann á þessum árum en fóru líka til Noregs. Þannig dvöldust þau í Noregi í tæpt ár, árið 1930, þá með tvö eldri börn sín. Áform afa mun hafa verið að flytja til Ameríku en kreppan árið 1929 munu hafa slegið þau áform út af borðinu.
Sú fyrirhyggja afa að kaupa heimili þeirra hjóna á Hesteyri – Hansínuhús, árið 1937 af Þorvaldi og Maríu, ekkju Ólafs Benjamínsonar er lán okkar afkomenda. Örlög þess urðu því önnur en margra annarra húsa í þorpinu sem flutt voru til Ísafjarðar, Hnífsdals eða Bolungarvíkur.
Húsið stóð autt frá árinu 1945 eftir að afi og amma flytja til Reykjavíkur, allt þar til faðir minn og systkini hans byrja að koma aftur árið 1958. Svo vill til að móðir mín sem þá var nýtrúlofuð föður mínum kom til Hesteyrar með Dagnýju sumarið 1958, og lét Dagný það þá verða sitt fyrsta verk við landtöku að leggjast í fjörunar, faðma hana og kyssa. Við komuna tók Bjarni Pétursson, fóstursonur Vagns og Margrétar að Móum á móti þeim mágkonum en bróðir hans Pétur Pétursson frá Grænagarði sigldi með þær yfir á Sigurvoninni og gerði það raunar í mörg ár þar á eftir. Bjarni hafði þá undanfarin ár ásamt Sölva Betúelssyni haft auga með húsinu fyrir þau systkinin.
Of langt mál er að telja upp allar þær góðu minningar sem skapaðar hafa verið á Hesteyri í gegnum árin og áratugina. Þangað fórum við systkinin með foreldrum okkar, frænku og frænda og áttum dásamlegan tíma og lærðum að meta náttúruna og hið einstaka ósnortna svæði sem Sléttuhreppur er. Faðir minn7 naut sín hvergi betur en á æskuslóðunum á Hesteyri við útivist og gönguferðir, silungsveiði og berjatínslu. Gamla síldarstöðin var jafnan vinsæll áningarstaður og ósjaldan dró þá pabbi upp úr bakpokanum súkkulaði, appelsínur og harðfisk við góðar undirtektir okkar barnanna og oftar en ekki var þá hlaðið í bálkost og horft inn í glæðurnar fram eftir kvöldi.8
Hin síðari ár hef ég notið þess að heimsækja þetta dásamlega svæði með eiginkonu, fjölskyldu og góðum vinum og eru allir sammála um að fáir staðir á Íslandi bjóði upp á betri möguleika til útivistar og göngu.
Það er gæðastund að koma á Stað og þiggja kaffisopa í prestbústaðnum eða njóta gestrisni Friðriks Hermannssonar í Sjávarhúsinu, nú eða eiga fróðlegt samtal við Matthildi Guðmundsdóttur um lífið á Látrum eins og það var þegar þorpið var í byggð og athafnafeðgarnir Friðrik Magnússon og sonur hans Gunnar Friðriksson gerðu út frá Látrum.
Og líklega er vandfundinn fegurri staður á Íslandi en fjaran undir Hvarfanúp við Miðvíkurós eins og Jónas Hallgrímsson, skáld, lýsir, í ferð sinni um þessar slóðir við náttúrurannsóknir árið 1840.
Sjálfur læt ég oft hugann reika þegar ég kýs að hverfa frá amstri hversdagsleikans og bregð mér í huganum til Aðalvíkur og Hesteyrar og finnst sem ég heyri þá ölduniðinn og finni sjávarloftið leika um andlitið og fyllist þakklætis í garð okkar dugmiklu forfeðra sem af þrautseigju og æðruleysi byggðu þetta harðbýla svæði öldum saman.
Það er við hæfi að ljúka þessu erindi með Davíðssálmi sem var föður mínum, Hesteyringi og náttúrubarni hugleikinn:“
Ég hef augu mín til fjallanna:
Hvaðan kemur mér hjálp ?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.”
Kærar þakkir fyrir áheyrnina!
Tekið saman fyrir ræðu þann 1. október 2023
1 Einnig flutti yngsti sonur Hansínu, Eiríkur í húsið ásamt eiginkonu sinni Elísabetu Halldórsdóttur en þau fluttu síðar í eigið hús hinum megin við Hesteyrarána. Eiríkur er eina barn Hansínu sem ég hitti sem barn og er hann mér minnisstæður en hann lést árið 1979.
2 Þau voru Þorvaldur stórkaupmaður í Reykjavík, Guðrún húsfreyja á Hesteyri (langamma mín), Ólafur stórkaupmaður í Reykjavík og faðir Sonju, Hólmfríður húsfreyja á Grænagarði, Ísafirði, Þórunn húsfreyja í Noregi og Einar, útvegsbóndi á Sæbóli.
3 Í bréfi frá Guðmundi Snorra Finnbogasyni í Þverdal til Leifs Sigurðssonar skrifað í desember 1915 má lesa eftirfarandi frásögn: „Hér vildi til voðalegt slys þann 17. nóvember. Árabátur sem Guðmundur Helgi átti fórst með 6 mönnum úr fiskiróðri. Formaður var Einar Benjamínsson og hásetar Jósep og Sturla frá Görðum. Jón Sigurðsson fóstursonur Guðmundar Helga og tveir synir Árna í Skáladal, Jón og Tómas. Sama dag fórust í Bolungarvík tveir mótarbátar, annar með 5 mönnum en hinn með 6. Þetta er eitthvert það mesta slys sem hér hefur viljað til við Djúp nú í langan tíma. Þessir 17 menn, láta eftir sig 10 ekkjur og 40 börn sem er flest eða allt bláfátækt fólk. Það hefur verið safnað samskotum fyrir ekkjum og börnum þeirra, bæði á Ísaf. Hnífsdal og Bolungarvík. Hér í hreppi er líka verið að safna. Ég gekk hér um Hesteyrina með gjafalistann á sunnudaginn 19. Þ.m. og söfnuðust á hann nokkuð á þriðja hundrað krónur.“
4 Þau eru í eftirfarandi röð: Benjamín fæddur 1894 hann fór til Noregs, Guðmundur Halldór kaupmaður á Hesteyri og síðar í Reykjavik afi minn, Elías bóndi og sjómaður í Skáladal og Hesteyri, Guðmundur Benedikt, sjómaður og útvegsbóndi á Hesteyri, Ólafur, kaupmaður í Kaupmannahöfn, Elísabet húsfreyja á Hesteyri, Emilía húsfreyja á Sléttu, Helga á Sléttu og síðar hjúkrunarkona í Reykjavik.
5 Margir sem sáu Albert í fyrsta skipti dæmdu hann eftir stærðinni einni og töldu hann ekki líklegan til stórræða. Það fékk formaður einn úr Djúpi, Þórður að nafni að reyna eftir að hafa skorað á Albert og skipshöfn hans til bændaglímu. Skyldi svo sú skipshöfn, er ósigur biði, annast um þrif og umhverfi verbúðanna, færa burt rusl og óþverra sem þar hafði safnast saman. Til að gera langa sögu stutta þá lauk þeirri viðureign með mikilli byltu Þórðar og kvað hann óhapp hafa verið. Albert kvað um það mega bæta og því fús væri hann að glíma við hann aftur. Tóku þeir þá glímutökum á ný og fór sem fyrr að Þórður féll. Albert spurði hvort enn væri óhapp en Þórður kvað þá fullreynt. Albert sagði þá Þórði að hann skyldi ekki þurfa að skipa sér eða mönnum sínum til óþrifaverka framar. Þeir Albert og Þórður urðu síðan mestu mátar.
6 Hrefna Tynes lýsir ömmu svona: „ Eftir því sem ég kynntist Borghild betur, varð mér ljóst, að hún var ákaflega góð kona. Af henni lærði ég mína fyrstu norsku, og það svo rækilega, að dönskukennarinn minn spurði mig veturinn eftir, hvar ég hefði eiginlega verið í sumar, stílarnir mínir væra norskir en ekki danskir. Borghild var ákaflega söngelsk og kunni fjölda söngva, ég tók eftir því að allir textamir voru svo fallegir, og eitthvað hreint og saklaust yfir þeim. Hún spilaði líka á sítar, og vildi lofa mér að reyna. Mér fannst þetta hreinustu töfratónar, það þurfti ekki að hvetja mig mikið til að reyna. Fyrsta lagið sem ég lærði hjá henni var: „Nærmere dig min Gud“ — Hærra minn Guð til þín, það kunni ég. Hún söng mikið af trúarljóðum, ég kunni töluvert af sálmum, en ekki svona ljóð.“
7 Það var föður mínum sárt að horfa uppá kirkju Hesteyringa fjarlægða af grunni sínum sumarið 1960 og geta ekkert að gert. Vonandi ber Hesteyringum gæfa til að reisa í framtíðinni litla kapellu á grunni kirkjunnar, Það væri sómi að því.
8 Hornstrandir voru ævintýraheimur pabba. Sumarið 1980 fórum við feðgar saman í eftirminnilega vikuferð um þær slóðir en pabbi var þá fararstjóri hóps á vegum Ferðafélags Íslands. Sú ferð verður lengi í minnum höfð. Með í för var glaðbeittur danskur blaðamaður sem spurði pabba strax í upphafi hvort 13 ára drengur ætti örugglega erindi í þessa ferð þar sem allur farangur væri borinn á bakinu. Til að gera langa sögu stutta, þá þróuðust mál þannig að það varð hlutskipti okkar feðgana að festa í hann taug okkar á milli vegna óvæntrar lofthræðslu við fuglabjörgin. Um haustið sýndi pabbi mér sposkur danska blaðagrein þar sem mín var getið í fyrsta og eina skiptið á ævinni. Frásögnin var eitthvað á þessa leið “ I turen var en rask gut på 13, som viste sig at være, stærk som en bjørn” Ekkert var minnst á lofthræðslu í þessari annars ágætu dönsku grein. Svo skemmtilega vildi til að fyrir nokkrum árum að mér barst sending frá Danmörku, 36 árum eftir þessa ferð. Var þar komin ferðsagan frá árinu 1980 útgefin í bók danska blaðamannsins sem var í ferðinni með okkur, hann þá orðinn roskinn maður. Gafst mér færi á að hitta hann þegar ég átti leið um Silkeborg í Danmörku nokkrum mánuðum síðar og urði þar miklir fagnaðarfundir.