Ræða Stefáns Þórs Sigurðssonar við messu Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík

Góðir samsveitungar og aðrir gestir.

Ég heiti Stefán Þór Sigurðsson og ég er ættaður frá Skriðu, Látrum, Aðalvík. Faðir minn var Sigurður Ágústsson, sonur Ágústar Péturssonar og Sigríðar Maríu Sigurðardóttur og áttu þau bú að Skriðu, en fluttu þaðan þegar faðir minn var á unglingsárum. Ég vænti þess fastlega að það sem ég segi hér eigi sér samsvörun í upplifun manna, hvar sem er í hreppnum.

Lífið á þessum slóðum hefur auðvitað verið mis gott, það er það alltaf, allsstaðar. En viðmiðið, hvað sé gott og hvað ekki, hefur væntanlega breyzt meir en margur gerir sér í hugarlund. Gömlu mánaðarheitin gefa enda raunsanna mynd af lífsbaráttunni þar fyrrum: Ýlir, Mörsugur og Þorri voru fyrirkvíðanlegir, eins og mánaðarheitin bera með sér, þó þorrinn sé í dag helst þekktur fyrir að þá eta menn svokallaðann þorramat, sem var hversdagsmatur fyrri tíma. Enn á okkar tímum á Þorri það til að hrista

...fannafeldinn,

fnæsa í bæ og drepa eldinn.

En

Góan á til grimmd og blíðu,

gengur í éljapilsi síðu.

Það eru bara svo óendanlega þolanlegri aðstæður nú á tímum til að takast á við náttúruöflin, þó þau hafi kosið að minna á sig og sýna hvers þau eru megnug síðastliðinn vetur, víðast hvar annars staðar á Íslandi en á suðvestur horninu. Á húsakosti og samskiptamöguleikum hafa orðið slíkar breytingar, að orðið byltingverður ekki nógu atkvæðamikið.

En menn voru alls ekki alveg sambandslausir við umheiminn. Hlustað var á útvarp og var vindmyllu komið upp á fjósinu við Ólafshús á Látrum til framleiðslu rafmagns. Þangað áttu menn kost á að koma með rafhlöður úr útvörpunum sínum og láta hlaða þau. Það er nú aldeilis orðin breyting þar á. Þessi framtakssemi sýnir glöggt að menn höfðu sterka þrá til að rjúfa einangrun sína. Það vekur líka athygli að á gömlum ljósmyndum má sjá að fósturlandsins freyjur klæddust samkvæmt nýjustu tísku þess tíma, komin alla leið frá útlandinu.

Hernaðarbröltið í og eftir síðari heimsstyrjöldina hefur væntanlega valdið stökkbreytingu á kjörum manna. Vinna, sem menn fengu borgað fyrir í peningum, var á lausu og mikið framkvæmt. Sjálfsagt hafa kynnin við annan menningarheim losað um þau bönd, sem héldu mönnum. Sjóndeildarhringurinn hefur stækkað. Það útaf fyrir sig er alltaf til góðs, þó ekki ætli ég að dásama hernaðarbrölt.

En nú er öldin önnur. En þó að þynnist raðir þeirra, sem áttu búsetu í hreppnum og enn eru meðal okkar, eykst að sama skapi fjöldi þeirra, sem kýs að fara þangað og eyða þar dögum og jafnvel vikum á slóðum forfeðranna. Ýmist falla menn kylliflatir fyrir umhverfinu og verunni þar, eða þola þetta alls ekki. Þar upplifa menn þá hvíld og ró, sem yfir menn færist, þegar daglegt amstur er skilið eftir. En auðvitað kynnast menn bara einni hlið á veðurfarinu, því þeir eru þar á þeim tíma þegar

Sólmánuður ljóssins ljóma

leggur til og fuglahljóma

og þegar

Heyannir og hundadagar 

hlynna' að gæðum fróns og lagar.

 

Tvímánuður allan arðinn 

ýtum færir heim í garðinn.

Margir koma til að ganga um landið, sigrast á ófærum og rifja þá gjarna upp sögur af forfeðrunum og lífinu fyrrum. Þarf ekki annað en að minnast á Posavog og hvernig nafn hans er til komið. Svo er merkt inná kort þar til hring er lokað eða markmiðum náð. Þeir, sem hafa þann kost, dvelja á óðölum forfeðranna en margt er um aðkomumenn, sem bera með sér tjald, og bjóðum við þá velkomna.

Það hlýtur að vekja athygli og aðdáun að þrátt fyrir lítinn húsakost stofnuðu menn skóla, reistu skólahús og réðu til sín kennara og einnig voru í sveitunum farkennarar, sem fóru á milli bæja og kenndu um tíma á hverjum stað. Ber þetta vott um eilífa þrá manna eftir menntun og þekkingu.

Verzlanir voru reknar í Sléttuhreppi og rétt innan við Hesteyri reistu Norðmenn Hvalstöð, stóriðju þess tíma. Það voru svo nokkrir Norðmenn frá Hvalstöðinni, sem í júní 1902 héldi einhvern fyrsta Frímúrarafund á Íslandi, undir berum himni, rétt utan við Kálfatind í Hornvík. Umheimurinn er stundum bara handan við hornið.

Menn koma sér upp minningasafni, eftir hverja ferð á slóðir forfeðranna, safnast myndafjöldi, sem hjálpar mönnum að rifja upp, muna og endurupplifa ferðina. En ekki eru allar minningar bundnar við myndir. Ein er sú minning, sem brennt hefur sig í huga minn og skýtur upp í huga mínum, oft. Þannig er að allir, og þá meina ég allir krakkar sem með okkur hjónunum hafa komið og dvalið um stund, hafa fundið hjá sér óstöðvandi löngun til að smíða bát. Misstórar fleytur, sem svo þarf að fleyta á sjó eða vatni.

Einu sinni sem oftar fékk eitt barnabarnanna mig til að koma með sér frá Hjálmfríðarbóli og inn að Staðaránni, til að sigla óvenju litlum báti, sem hún hafði smíðað. Við fórum af stað eftir kvöldmat, sem var á einhverjum óvissum tíma, eins og verða vill, og inn að Staðará, upp með ánni, dálítinn spotta frá sjó. Þarna dunduðum við okkur dágóðan tíma við siglingafræðilegar athuganir. En það er algengt að ár renni til sjávar og svo er um Staðarána og svo fór um bátskrílið. Æstust nú leikar, hætta var á að báturinn bærist til sjávar, eða strandaði í ósnum, sem hann og gerði. Afinn, ég, óð útí ósinn að bjarga fleytunni. Sem ég var að beygja mig eftir henni skrikaði mér fótur og féll einhvernveginn kylliflatur. Ekki var hætta á að ég drukknaði, frekar að ég rotaðist í grjótinu. Allt gekk þetta þó stórslysalaust, bátnum bjargað og við, afastelpan og ég, komumst á þurrt.

Héldum við svo heim á leið, hún sveiflandi grein og - þar sem hún var nýbúin að læra að flauta – þá var hún flautandi, stanzlaust. Ég gætti bátsins og liðið var fram að miðnætti. Beint framundan, yfir Darranum og Hjálmfríðarbóli, áfangastað okkar, brosti tunglið til okkar, óvenju stórt. Á hægri hönd, útvið Straumnesið, var sólin að setjast í eldrauðum bjarma. „Heldurðu að amma gefi okkur kakó“? spurði sú stutta. „Alveg klárt“ svaraði ég og mundi eftir rommdreitli í búrskápnum.

Það hefur aðeins teygst úr þeirri stuttu og síðsumars á síðasta ári, færði hún okkur hjónunum langafa/langömmu börn. Tvo stráka, tvíbura. Ég get ekki beðið eftir að hjálpa þeim við smíði bátanna þeirra.

Ég vil geta þess að þegar ég vitna hér í gömlu mánaðarheitin þá er þar vitnað í Kvæði um mánuðina, eins og farið var með það að Bæjum á Snæfjallaströnd og - eins og ég skil það - flutt þar af Arnþrúði Kaldalóns þann 1.1.1996.

Takk fyrir áheyrnina.