Ræða formanns Átthagafélags Sléttuhrepps á Ísafirði

Ræða Andreu Sigrúnar Harðardóttur, formanns Átthagafélags Sléttuhrepps á Ísafirði, flutt í messuferð að Stað í Aðalvík, laugardaginn 17.júlí 2010.

Sú sem hér stendur þekkir ekki alveg til þess hvernig og hvenær nákvæmlega hugmyndin að þessu mikla verkefni, sem sér nú fyrir endann á, kviknaði en minnisstæður er mér fundur sem haldinn var í stofunni heima hjá mér í lok janúar árið 2007, þar sem hópur fólks var saman kominn og hlustaði á arkitektinn frá Bólinu í Aðalvík, skýra frá ástandi kirkjunnar, útskýra teikningar og gera grein fyrir því hvað þyrfti að lagfæra. Það þurfti að lyfta einum gaflinum og hlaða aftur, þessar spýtur voru fúnar og skipta þyrfti um þær, ástand þaksins svona og svona, auk turnsins og glugganna.


Ég reyndi að sýnast gáfuleg og kinka kolli á réttum stöðu, þótt satt best að segja skildi ég ekki alveg allt sem þarna var rætt. Hins vegar gerði ég mér grein fyrir því að félagar mínir þarna í stofunni virtust vita nákvæmlega hvað um var rætt, áhuginn geislaði af hverju andliti og þeir virtust þekkja hverja spýtu í kirkjubyggingunni.


Hafi einhvern tímann vottað fyrir efasemdum hjá mér um að hægt væri að fara út í stórvirkar viðgerðir hér á Stað þá hurfu þær eins og dögg fyrir sólu þetta þungbúna síðdegi. Þarna voru á ferðinni einstaklingar sem voru tilbúnir í slaginn, tilbúnir til að verja kröftum sínum og tíma í þetta verkefnið.


Ýmislegt hefur gengið á síðan þá, ekki gekk að manna vinnuferð strax vorið 2007 enda stuttur fyrirvari. Hins vegar var efni flutt norður með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Ísafirði til Aðalvíkur. Ári seinna gekk mun betur að fá mannskap, enda strax í upphafi árs 2008 farið að herja á félagsmenn um að koma norður og leggja málefninu lið. Skoðanir manna voru misjafnar á því hvernig vinna skyldi að einstaka þáttum. Það runnu t.d. tvær grímur á ýmsa þegar ljóst var að safna þyrfti grjóti út um alla mela til að hlaða hluta af grunninum aftur, eftir að búið var að lyfta kirkjunni. Til hvers að nota grjót þegar hægt væri að nota steypu? Efasemdarmenn voru talaðir til, grjótsöfnunin hófst og grunnurinn hlaðinn. Til þess fengust sérstakir hleðslumenn, fagmenn, sem kunnu til verka og leystu verkefnið af stakri prýði.


Þegar hópur ólíkra einstaklingar kemur saman, einstaklinga sem margir hverjir hafa sterkar skoðanir, er ljóst að miðla þarf málum. Sumir hafa viljað drífa í hlutunum, ekki séð ástæðu til að hanga um of yfir einstaka verkum, vera að einhverju gamaldags dútli þegar nýmóðins græjur eru til, til að redda málunum. Aðrir hafa verið varkárari og viljað viðhafa yfirvegaðri og e.t.v. nettari aðferðir, láta handverkið njóta sín og halda sem mest í upprunann. Þá skipti máli að geta sætt ýmis sjónarmið, þótt líklega hafi einstaka sinnum reynt á þolrif þeirra sem stóðu á milli fylkinga í samningaviðræðunum. En ásættanleg niðurstaða fékkst þó að lokum sem flestir hafa getað sætt sig við.


Það auðveldaði verkið og viðgerðina, að geta boðið upp á aðstöðu í prestsbústaðnum. Það að geta séð mannskapnum fyrir húsaskjóli og næringu skiptir sköpum, menn verða að geta einbeitt sér að vinnunni en jafnframt slakað á milli vinnulota, átt afdrep að degi loknum, því vinnudagar hafa verið langir, ekkert slugs leyft. Og það er ekki nóg að geta haldið á hamri, grafið skurði og beitt málningarpensli. Það þarf líka að steikja fisk, elda kjötsúpu, hita hafragraut og laga kaffi. Enginn getur hamast daginn út og daginn inn ef engin er næringin. Sjálfboðaliðar í eldhúsi drógu ekki af sér frekar en aðrir í vinnuferðunum og hafa sinnt sínu hlutverki af alúð.


Félögin hafa verið svo lánsöm að eiga góða að þessi sumur, ekki einungis félagsmenn heldur einnig einstaklinga, sem ekki eru einu sinni ættaðir úr sveitinni, Þeir hafa unnið af krafti og áhuga að viðgerðunum ekki síður en ,,heimamenn" og gefið vinnu sína og meira en það til að útkoman yrði sem best.


Ég lofaði í símtali fyrir nokkrum dögum að nefna engin nöfn í þessari stuttu tölu, það væri svo erfitt að draga einhvern eða einhverja út úr hópnum því framlag allra hefur skipt máli. Einstaklingar hafa eytt frídögum sínum á undanförnum þremur sumrum í vinnuna, sumir tekið þátt í öllum ferðum og verið lengi, aðrir hafa mætt þegar þeir hafa á því tök, enn aðrir hafa ekki komist á staðinn en látið verkefnið njóta krafa sinna fjarri víkinni á þann hátt sem þeir hafa getað, með ráðleggingu, snatti, reddingum, tilhliðrunum, aðstoð af ýmsu tagi og síðast en ekki síst, mórölskum stuðningi. Allt þetta skiptir máli og er kærkomið.


Styrkir og fjárframlög frá opinberum aðilum og einstaklingum gerðu gæfumuninn og gerðu átthagafélögunum kleift að fara út í þessar viðgerðir.


Eins og ég sagði, þá lofaði ég að nefna enginn nöfn og ætla að standa við það. En stundum verður ekki hjá því komist að tæpa á ýmsu. Það þarf brennandi áhuga og þekkingu á að taka út heila kirkju, kanna ástand hennar, semja ítarlega og nákvæma skýrslu um það sem að gera þarf, teikna upp og útskýra málin, fá fólk í lið með sér, fá það til að kaupa hugmyndina. Við erum heppin að eiga slíka að hér í sveitinni.


Það fór um nokkra félagsmenn þegar örfáir dagar voru í að fyrsta vinnuferð yrði farin. Ljóst var að verkstjórnanda vantaði, fagmann sem hefði yfirumsjón með verkinu. Töldu menn sig hafa landað einum slíkum, en þegar til átti að taka var sú ekki raunin. Hvað skyldi nú til bragðs taka, áttum við að fresta þessu enn um sinn og ferðin að skella á?

En þá kvað maður nokkur upp úr um það, að engin leið væri önnur fær en að halda áfram samkvæmt áætlun og hefja verkið, undirbúningur væri það langt á veg kominn, að það væri engin leið til baka. Hann skyldi reyna að gera það sem hann gæti til að hrynda verkinu af stað, þó svo að hann hefði ekki neina sérþekkingu á málum. Og þar með var tónninn gefinn.


Ég held að ég geti sagt með réttu og vona að enginn telji hér á sig hallað, að þessi einstaklingur, sem ekki vill láta nafn síns getið, hafi ósjálfrátt og örugglega án þess að ætla sér það sjálfur, orðið eins konar leiðtogi átthagafélaganna í viðgerðarferðunum, verið sá aðili sem hópurinn fylgdi og treysti. Hann hefur haldið okkur við efnið, verið tengiliður milli manna og skoðana, því mig grunar að hann hafi stundum þurft að miðla málum í þessum skrautlega og ólíka hópi, þar sem allir hafa skoðanir á öllu. Þeir sem hafa tekið þátt í þessu mikla verkefni, vita um hvern er rætt. Ég vona og í raun veit ég, að þeir eru sammála mér.

En hvers vegna er fjöldi manns að þessu brölti út af einni, lítilli sveitakirkju í eyðibyggð? Er hér eingöngu verið að viðhalda gamalla byggingu, eða er eitthvað meira á ferðinni? Er kirkjan e.t.v. samnefnari eða tákn fyrir eitthvað meira og stærra?

Gamlir innbyggjarar hófu viðgerðir og lagfæringar á kirkjunni upp úr 1970 og sáðu með því fræjum í huga afkomenda sinna, um það sem skipti máli. Án þeirra væru þessi hús ekki uppistandandi í dag.

Stór hluti þess hóps sem hér hefur unnið og helgað málefninu krafta sína að undanförnu, er ekki fæddur og uppalinn á þessum slóðum. Hins vegar erum við mörg alin upp af fólki sem fæddist og ólst upp hér í hreppnum. Hvað er það sem tengir saman þennan hóp enn í dag þó svo hreppurinn hafi farið í eyði fyrir mörgum árum?


Ég lenti í smárifrildi í vor við einstakling sem mér fannst tjá skoðanir sínar á þessu svæði, sterkar en mér fannst hann hafa efni á, þar sem hann þekkti í raun ekki mikið til hér. Í bræði minni las ég honum pistilinn og lauk máli mínu á þá leið að hann skyldi ekki vera með yfirlýsingar um það sem hann hefði ekkert vit á og láta vera að skipta sér af því sem honum kæmi ekkert við. Þá dró viðkomandi aðili í land, glotti til mín og sagði í sáttatón: ,,Þið búið kannski ekki þarna lengur, en í rauninni þá hafið þið aldrei farið í burtu."


Og kannski er það málið, fólkið flutti en andinn varð eftir. Og þessi andi lifir áfram í afkomendum Sléttuhreppinga, beint eða óbeint. Þeir eru dreifðir út um allar jarðir og fást við ólíka hluti, en erum samt sveitungar, eru hluti af andanum sem varð eftir heima í víkunum. Og á meðan hópurinn á eina litla sveitakirkju sem þarf að viðhalda og annast, þá sýnir hann umheiminum og ekki síst sjálfum sér, að hann ætli sér að vera hér áfram, því að þó svo að enginn okkar búa lengur í víkunum, þá við höfum samt aldrei alveg flutt, a.m.k. ekki í huganum.


Andrea Sigrún Harðardóttir (dótturdóttir Jónu og Stígs frá Horni.)