Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerir tillögur að breytingum á Hornstrandafriðlandi
Undanfarið hafa verið umræður um umferð vélknúinna farartækja innan friðlandins á Hornströndum. M.a. bréf Sigurðar Jónssonar til bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar. Í framhaldinu áttu fulltrúar Ísafjarðarbæjar símafund með fulltrúum Umhverfisstofnunar og á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar 12. maí var samþykkt að leggja til breytingar á auglýsingu um friðlandið á Hornströndum. Bæjarráð fól bæjarstjóra að senda tillögurnar til Umhverfisstofnunar:
- Í 1. tölulið verði 60 föðmum breytt í 1 sjómílu, þannig að 1. töluliður auglýsingarinnar verði svohljóðandi eftir breytingar: „Mannvirkjagerð öll, jarðrask og önnur breyting á landi, svo og undan landi allt að 1 sjómílu frá grunnlínu, er háð leyfi Umhverfisstofnunar.“
- Í 2. tölulið verði skerpt á því að meðal vélknúinna faratækja teljist snjóbílar og vélsleðar og að umferð þeirra sé bönnuð, þannig að 2. töluliður auglýsingarinnar veðri svohljóðandi eftir breytingar: „Umferð vélknúinna farartækja, þar á meðal snjóbíla og vélsleða, utan vega og merktra slóða er bönnuð, allan ársins hring, nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til.“
- Tölulið 3 verði bætt við, þannig að 3. töluliður breytist í 4. tölulið o.s.frv. Í 3. tölulið verði tekin fyrir takmörkun á flugi yfir friðlandinu, þannig að nýr 3. töluliður verði svohljóðandi eftir breytingar: „Flug neðan 3.000 feta hæðar yfir friðlandinu er óheimilt. Bannað er að lenda flugförum utan merkta lendingarstaða.“