Hvað er á bak við hinstu sjónarrönd?

Ræða Borgþórs S. Kjærnested við messu í Áskirkju 2. maí 2010

Ég vil byrja á að þakka fyrir þann heiður sem mér er sýndur með því að bjóða mér að flytja hér nokkur orð um heimaslóðir forfeðra minna í Sléttuhreppi.

Þegar við skoðum kortið af Íslandi sjáum við að Vestfirðirnir rétt loða við restina af landinu. Ef við skoðum kortið nánar með jarðsögu Íslands í huga má næstum því leggja Vestfirðina að Austfjörðunum, ef miðhluti landsins er skorinn frá. Hróstrugir firðir Austfjarða og Vestfjarða hafa rekið sitt í hvora áttina um leið og nýtt land hefur orðið til í miðjunni.

Fræðimenn hafa haldið því fram að ef eldvirknin hefði ekki haldið áfram undir íshellu ísaldar, þá hefði Ísland aðeins orðið ögn stærri útgáfa af Færeyjum. Nú hafa hins vegar Austurland og Vestfirðir fjarlægst jafnt og þétt í rúm 15 miljónir ára, og enn er náttúran að breyta landinu með eldsumbrotum.

Fornar heimildir herma að menn hafi byggt Vestfirði seinna en aðra landshluta, en í Landnámu er þess getið að Geirmundur heljarskinn hafi farið vestur á Strandir og numið land frá Rytagnúp vestan til Horns og þaðan austur til Straumness. Í dag er Rytagnúpur fjallið Ritur milli Ísafjarðardjúps og Aðalvíkur. Elstu ritaðar heimildir eru frá 13. og 14. öld. Menn hafa gjarnan deilt um hvort Sléttuhreppurinn teljist til Hornstranda eða nyrðri Jökulfjarða og það stoðar lítið að kanna heimildir. Þannig telur Þorvaldur Thoroddsen að telja beri Hornstrandir frá Trékyllisvík „allt norður á Horn“. Þórleifur Bjarnason taldi mörkin að vísu ógreinileg, en í Hornstrendingabók greinir hann ekki Aðalvík frá Hornströndum, „þegar talað er um lífshætti, atvinnu, menningu og sögu.“ Svo má vitna til kirknatals Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá árinu 1200, en þar segir um Aðalvík, „kirkja í þetta, hvártveggja veg frá Horni og horfir þat í norður“. Skálholtsbiskup hafði vissulega hagsmuna að gæta gagnvart Hólabiskupi. Sjálfur held ég að þetta sé tilfinning, sem ekki beri að vanmeta. Móðir mín til að mynda vildi ekki láta kalla sig Strandamann, af hverju útskírði hún aldrei.

Alla 19. öldina og inn á þá tuttugustu var sterkur þéttbýliskjarni í næsta nágrenni við Sléttuhreppinn, en það var að sjálfsögðu Ísafjörður. Leiðin þangað var greið ef vel viðraði, ekki yfir fjallgarða að fara, heldur sjóinn. Ísafjörður var öflugt sveitarfélag á sínum tíma og löngum í beinu sambandi við umheiminn. Isafjörður var viðkomustaður kaupskipa í millilandasiglingum. Til dæmis hafði Dronning Alexandrine jafnan viðkomu á Ísafirði á leið sinni til Kaupmannahafnar. Það er mín tilfinning að um leið og fór að fjara undan stöðu Ísafjarðar þá harðnaði á dalnum í Sléttuhreppi. Árið 1933 urðu íbúar flestir, eða alls 500 og einum betur, áratug síðar 420 og í stríðslok rúmlega 280. Árið 1951 eru þrjátíu manns eftir í hreppnum og afgangurinn flytur árið eftir.

Búskapur hefur alla tíð verið fremur lítill, ef marka má heimildir bókarinnar Slétturhreppur, en fiskveiðar þó nokkrar, yfir 300 tonn 1941, eða um tonn á íbúa (310 manns) og fuglatekja mikil. Hlunnindi önnur voru fyrst og fremst rekaviður, hvalrekar og selveiðar, einkum á hafísárum. Afar mínir töluðu jafnan um að ávallt hefði verið nægur matur, annað hvort fugl eða fiskur, auk kinda- og kálfakjöts. Egg voru sett í mysu og borðuð allt árið, ýmist súr eða ný.

En það hafa verið þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem urðu á Íslandi í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Það er eins og það komi upp einhver losarabragur á tilveruna í Slétthreppi á stríðsárunum. Á þessum tíma er mikil og hröð uppbygging á Faxaflóa svæðinu, sem dró til sín fólk úr öðrum landshlutum.

En Sléttuhreppingar voru ekki með neinn asa. Þeir fluttu fyrst til Bolungarvíkur, Hnífsdals, Ísafjarðar og Súðavíkur. Þeir tóku sig hins vegar upp aftur seinna, um og eftir 1950 og fóru þá alla leið - til Akraness, Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Menn sóttu í aukin atvinnutækifæri, meiri menntunarmöguleika og fleiri tækifæri í tilverunni - en eins og allir sem hafa yfirgefið sínar heimaslóðir, þó af fúsum vilja sé, þá verður söknuðurinn eftir í hjartanu. Félagslegu þáttunum þremur er lyft fram í bókinni sem ég er alltaf að vitna til. 1. Erfiðar samgöngur og viðskipti, 2. Félagslegar orsakir og 3. Minnkandi atvinna. Ég held að minnkandi bolmagn Ísafjarðar til að styrkja bygðina umhverfis hafi einnig komið til sem áhrifavaldur í þessari þróun.

Sumir hafa snúið aftur og komið sér upp aðstöðu til að eyða fríum og til að minnast liðins tíma. Aðrir vildu aldrei snúa aftur til að geta geymt minninguna um það sem var hreina í huga sér.

1. Samgöngur og viðskipti.

Það var nær ógerningur að komast í og úr Sléttuhreppi nema af sjó. Öll viðskipti varð að sækja til Ísafjarðar. Hesteyri varð löggiltur verslunarstaður 1881 og þar var útibú verslunar Ásgeirs Ásgeirssonar á Ísafirði frá 1889. Sama ár setti hún líka upp fiskmóttöku á Sæbóli í Aðalvík og á Horni í Hornvík. Sveitaverslunum var komið upp á Sæbóli og í Höfn í skjóli Ásgeirsverslunarinnar. Einnig var stofnuð sveitaverslun á Látrum. En þetta breytti ekki einangruninni og þeim erfiðu samgöngum sem menn bjuggu við um aldir. Sagt er að byggðin hafi verið tilvalið hæli sakamanna fyrr á öldum. Mikið var gert til að reyna að bæta ástandið. Fyrir rúmum hundrað árum voru teknar upp póstferðir til Hesteyrar og einnig var aukapóstur látinn ganga til Hafnar. Árið 1891 ákvað sýslunefndin í Norður Ísafjarðarsýslu að kaupa gufubát fyrir sýsluna. Sýslunefndin samdi við Ásgeirsverslunina um ferðir gufubáts um Ísafjarðardjúp, sem verlsunin átti og íbúarnir kölluðu Ásgeir litla.

Ætlast var til að báturinn færi 28 ferðir um Djúpið á tímabilinu 16. maí til 15. október, en skryppi „stöku sinnum“ norður á Aðalvík og Höfn. Þannig var gert ráð fyrir 7 ferðum til Hesteyrar, einni til Sæbóls og Hafnar á tímabilinu júní til október árið 1902. En nú fóru aðstæður ört batnandi. Í bókinni Slettuhreppur segir: „Með þessu var einangrunin rofin, og þegar hreppurinn var um það bil að leggjast í auðn, hafði Djúpbáturinn áætlun í Jökulfirði og Aðalvík einu sinni í viku og fór auk þess tvær ferðir norður á Strandir bæði vor og haust. Hér má enn bæta því við, að vélbátar hreppsbúa bættu mjög aðstöðu þeirra til ferða yfir Djúpið. En fyrsti vélbáturinn var keyptur í hreppinn 1904. Frá Hesteyri til Ísafjarðar er u.þ.b. 3 ½ klst. ferð með litlum vélbát.“

Samgöngur á landi voru öllu verri kostur en sjórinn. Vörur urðu menn að bera sjálfir á milli bæja, hestar voru fáir og víða blautar mýrar yfir að fara.

2. Félagslegar aðstæður.

Fram undir lok 19. aldar var hvorki læknir né ljósmóðir staðsett í hreppnum. Lækni þurfti að sækja til Ísafjarðar, en ljósmóðurstörf önnuðust handlagnir karlmenn og nærfærnir, svokallaðir ljósfeður. Sýslunefndin ákvað árið 1899 að hreppurinn skyldi hafa tvær yfirsetukonur, en það reyndist erfitt að fá konur að flytja á þennan útkjálka. Grunnavík og Sléttuhreppur urðu sérstakt læknishérað með lögum frá Alþingi 1899 og 10. ágúst 1901 var Jóni Þorvaldssyni veitt embættið, en Jón var sonur Þorvaldar Jónssonar læknis á Ísafirði. Læknir sat á Hesteyri nokkurn veginn samfleytt til 1943, en þá varð hreppurinn aukaverk læknisins á Ísafirði. En 1. ágúst 1944 var aftir skipaður læknir á Hesteyri og Daníel Á. Daníelsson sinnti því starfi einn mánuð á ári í sumarfríinu. Læknisleysi hefur haft sitt að segja þegar að því kom að allir flyttust á brott.

Alþýðufræðsla hófst í Sléttuhreppi haustið 1884 og menn réðu Jón Friðfinnsson Kjærnested sem heimiliskennara að Hesteyri. Um aldamótin 1900 byggðu bræðurnir Friðfinnur og Elías Jónssynir Kjærnested nýtt skólahús á Látrum, sem tók til starfa 1904 og á Hesteyri 1907. Skólahald var þó nokkuð stopult vegna fjárskorts og kennaraskorts. Á Sæbóli var svo byggt vandað skólahús 1933, en þá var búið að stunda þar kennslu undanfarin ár í leiguhúsnæði. Árið 1939 samþykkti skólanefndin að sameinast um einn kennara í hreppnum vegna fjárskorts. Og enn eru fjárhagsörðugleikar og erfitt að fjármagna kennsluna haustið 1946 og hreppsnefndin mælist til þess við fræðslumálastjórann að ekki starfi nema einn kennari í hreppnum næsta ár, en nú er einnig minnst á fólksfækkun auk peningaleysis.
Sennilega hefur lögboðinni barnafræðslu verið sinnt allvel. Erfitt að vísu fyrir börnin að fara langar leiðir úr Fljóti og af Ströndum að Látrum og Hesteyri, en varla verra en víða annars staðar um allt land. Auk þess var oft aukafræðsla fyrir börn á Ströndum.       

Almennt félagslíf blómgaðist í Sléttuhreppi um aldamótin 1900. Jón Kjærnested gaf út skrifað blað á Hesteyri sem nefndist Hesteyringur og hann stofnaði lestrarfélag. Nokkrir ungir menn í hreppnum, nemendur Jóns, gáfu síðar út blaðið Áhuga. Búnaðarfélag var stofnað af Bárði Guðmundssyni, en hann var búfræðingur frá Ólafsdal um 1890. Guðmundur Sigurðsson kennari og kaupmaður á Látrum var mikill áhugamaður um fræðslu- og félagsmál. Hann stofnaði framfarafélagið Æskuna og endurreisti Lestrarfélag Hesteyringa.

Loftskeytastöð var reist á Hesteyri 1920 og 1922 var lagður sími þaðan að Látrum og 1939 að Sæbóli. Þar með var hreppurinn kominn í samband við umheiminn og búið að rjúfa verstu einangrunina.

Árið 1899 var hreppnum skipt í tvær kirkjusóknir, kirkja var á Stað, en nú reistu menn aðra á Hesteyri, sem leiddi til betri kirkjusóknar og um leið aukinna samskipta milli manna. Samkomur og dansleikir voru haldnir á stærstu heimilum og í skólahúsunum. Á 20. öldinni starfaði stúka í hreppnum og verkalýðsfélag var stofnað um eða eftir 1920.

En þrátt fyrir blómlegt félagslíf, bættar samgöngur og bærilega barnafræðslu seig óhjákvæmilega á ógæfuhliðina í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Nútíma atvinnuuppbygging með fiskverkun og frystihúsi brást og menn sáu fram á atvinnuleysi í náinni framtíð. Síldarverksmiðja Kveldúlfs var starfrækt frá 1927, en hún hætti 1940.  
 
Það var sennilega bæði einkaframtakið og aðgerðir hins opinbera sem brugðust þessari byggð. Í september 1946 átti hreppsnefndin fund með alþingismönnunum Sigurði Bjarnasyni frá Vigur og Hannibal Valdimarssyni og kynnti þeim björgunaráætlun fyrir byggðina í 6 liðum. Þessar aðgerðir voru eftirfarandi:

  1. Ríkið reisi tvö lítil hraðfrystihús, annað á Sæbóli í Aðalvík og hitt á Hesteyri.
  2. Lendingarbótum sem hafnar eru á Látrum verði haldið áfram, þannig að bryggja komi að fullum notum fyrir smávélbáta. Ráðgerð bryggja á Sæbóli verði byggð þannig að hún fullnægi þörfum hraðfrystihússins. Á sama hátt verði séð fyrir nauðsynlegum lendingarbótum á Hesteyri.
  3. Rannsökuð verði virkjunarskilyrði Hesteyrarár og Reykjadalsár í Norður-Aðalvík og þær virkjaðar ef ráðlegt þykir.
  4. Mælt verði upp ræktanlegt land við Hesteyri og í Aðalvík með tilliti til þess að hreppsbúar geti fengið aukin afnot af landi.
  5. Lögð verði áhersla á að ljúka sem fyrst akfærum sumarvegi milli Hesteyrar og Sæbóls.
  6. Fenginn verði þegar læknir í Hesteyrarhérað með búsetu á Hesteyri.



Tillögurnar lýsa vel hversu brýnna úrlausna var þörf, en þær hafa sennilega komið of seint. Það vantaði aðstöðu til að verka sjávaraflan heima fyrir og skapa þannig atvinnu eins og tíðkaðist í sjávarþorpunum annars staðar í landinu. Sléttuhreppingar gátu ekki stækkað sína báta eins og gert var annars staðar, til þess skorti lendingaraðstöðuna. Einnig vildu menn geta framleitt rafmagn til að mæta kröfunni um aukin lífsþægindi og til að búa í haginn fyrir atvinnureksturinn. Tillagan um að mæla upp ræktanlegt land er athyglisverð. Menn hafa fundið fyrir því að landkostir voru vannýttir. Unnt væri að auka landbúnað að miklum mun, en til þess þyrfti skipulag. Krafan um akfæran veg milli Hesteyrar og Sæbóls sýnir hve samgöngurnar voru mikið vandamál. En hreppstjórninni var orðið ljóst að fólk var farið að hugsa sér til hreyfings. Bergmundur Sigurðsson oddvti á Látrum bendir á þetta í bréfi til félagsmálaráðuneytisins í lok ágúst 1946, hálfum mánuði fyrir fundinn með Sigurði og Hannibal. Lýsingin á ástandinu er ekki björt.

Héraðið er læknislaust og ljósmóðurlaust og presturinn er líka farinn. Landsímastöðin og bréfhirðingin á Látrum hefur verið lögð niður.

Rúmlega hundrað manns flytja brott fyrir 1. október og um 180 manns verða þá orðnir eftir. Af þeim eru 35 sextugir eða eldri og börn innan við 16 ára 55 talsins, eða 80 af þessum 180 eru aldraðir og ungmenni. Verkfærir enn eru aðeins 33.

Af fyrrverandi hreppsnefndarmönnum eru aðeins tveir eftir, enginn eftir í kjörstjórn og varamennirnir eru líka farnir, allir skólanefndarmenn Látraskóla eru brottfluttir. Brottfluttir greiddu um helming útsvarsins 1946.

Nú er það eina ráðlega í stöðunni að hjálpa þeim sem eftir eru til að fara, segir Bergmundur oddviti, þar sem sársauki manna er mikill við að horfa upp á heilt byggðarlag leggjast í auðn. Slíkt og þvílíkt hefur lamandi áhrif og dregur þrótt úr þeim, sem eftir eru og alltaf sjá raðirnar þynnast og erfiðleikana aukast.

Ætla má að stjórnvöldum hafi fallist hendur frammi fyrir vandanum. Í ljósi þróunarinnar annars staðar á landinu þá skar Sléttuhreppurinn sig ekki verulega úr. Bolmagn stjórnvalda í litlu landi voru takmörkuð og alltaf erfitt matsatriði í þeirra augum hvar skuli fjárfest og hvar ekki.

Tengsin mín við þessa fallegu sveit eru tvenns konar.

Langalangafi minn og amma í föðurætt, Friðfinnur Jónsson Kjærnsested og Rannveig Magnúsdóttir, en hann og bróðir hans Elías byggðu skólahúsið á Látrum. Sonur Friðfinns og Rannveigar, Jón, starfaði þar um tíma sem kennari. Jón hafði stundað farkennslu um sveitina áður en skólinn kom til 1902. Skólinn var byggður að frumkvæði Guðmundar Sigurðssonar og konu hans Pálínu Hannesdóttur, en þau voru bændur á Látrum. Guðmundur og Pálína börðust fyrir framfaramálum sveitarinnar, stunduðu verslun.    

Langafi minn, Elías Kristján, sonur Friðfinns, og langamma mín Jóhanna Jónsdóttir, bjuggu á Stað og þar fæddist afi minn, Friðfinnur Árni og fimm systkini önnur, þau Jóhanna, Magnús skipstjóri, Rannveig og Halldór briti, faðir Guðmundar skipherra. Langafi bjó á Stað árin 1900 til 1905  og á Læk til 1911, en fluttist þá til Ísafjarðar og síðar til Hafnarfjarðar.

En móðurættin mín liggur nær í tíma. Móðurafi minn, Þorsteinn Bjarnason, var síðasti útvegsbóndinn í Neðri Miðvík og þar var móðir mín, Hjálmfríður, fædd árið 1916 og ólst þar upp. Móðuramma mín Hólmfríður Ragnheiður Guðmundsdóttir, lést af barnsförum 1921. Litla barnið lést viku síðar og afi stóð uppi einn með fimm börn, elsta, María, tók við heimilinu. Mamma, sem var fimm ára, var áfram heima með Maríu, meðan öðrum börnum, Sigurði, Pálínu og Kristni var komið fyrir hjá skyldfólki annars staðar í hreppnum. Þorsteinn afi sótti sjóinn og var með nokkrar kindur og eina kú. Þau bjuggu í Miðvíkinni á bænum Neðri.Miðvík. Sitt hvoru megin við eru Látrar og Sæból.

Fyrir nokkrum árum gekk ég, ásamt tveimur systkinna minna og venslafólki þeirra, um þetta svæði. Við lögðum upp frá Hesteyri og gengum yfir hálsinn niður í Aðalvíkina. Einum degi varði ég til að horfa á sjóndeildarhringinn hennar mömmu. Hún hlýtur einhvern tíma að hafa spurt sig, hvað er á bak við hinstu sjónarrönd. Alla vega ákvað hún snemma að kanna það. Fór innan við tvítugt í Hnífsdal og síðan áfram til Reykjavíkur. Þar hafði hún komist í vist hjá virtum mennta- og fræðimanni til að passa 5 ára gamlan son þeirra hjóna. Hann stóð á bryggjunni í frakka og hatt þegar Dronning Alexandrine lagði að bryggju í Reykjavík.

Móðir mín barðist áfram til að mennta sig, vann á Vífilsstöðum og í Vatnsdal, gekk í húsmæðraskólann á Blönduósi í tvo vetur og kláraði síðan Garðyrkjuskólann í Hveragerði með ágætiseinkunn. Flutti í Borgarfjörðin og reisti þar nýbýli ásamt föður mínum og vann við það til ársins 1958. Flutti þá til Reykjavíkur og vann hjá Mjólkursamsölunni í um tvo áratugi.

Ekki veit ég hvort hún varð nokkurs vísari um það sem var handan við sjóndeildarhringinn í Aðalvíkinni, frekar en öðrum mönnum tekst að uppgötva. En hún talaði ávallt af hlýhug um berskuna og stundum kom afi Þorsteinn í heimsókn í Borgarfjörðinn og hafði með sér kúskeljar og kuðunga í strigapoka. Það opnaði sveitabarni innsýn í nýjan heim.

Atorka og dugnaður, eljusemi og áræði eru þættir sem margir tengja við Vestfirðinga, enda hafa þeir oft tekist á við erfiðar aðstæður. Þeir hafa því átt ríkan þátt í uppbyggingu þess íslenska þjóðfélags sem við upplifum í dag - og geta vel við unað. 

Borgþór S. Kjærnested
Messa í Áskirkju þann 2. maí 2010