Messa og messukaffi 2014

Búið að leggja á borð fyrir messukaffi
Búið að leggja á borð fyrir messukaffi
1 af 12

Árleg messa og messukaffi Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík fór fram í Áskirkju sunnudaginn 11. maí. Sveinn Hjörtur Hjartarson flutti ræðu í messunni þar sem hann rifjaði upp kynni sín af fólki frá Aðalvík og ferðum sínum um víkina. Um 90 Sléttuhreppingar mættu í messuna og fengu sér kaffi í safnaðarheimilinu að messu lokinni. Kaffinefnd félagsins reiddi fram fínustu krásir fyrir messugesti. Ræða Sveins fylgir hér að neðan.

  

 

Predikun flutt í Áskirkju 9. Maí 2014
Átthagafélag Sléttuhrepps.
Sveinn Hjörtur Hjartarson

 

„Þó þú langförull legðir sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta samt þín heimalands mót.“


Þannig kvað Stephan G Stephansson í frægu kvæði sínu í Íslendingaræðu árið 1904 í Winnipeg. Skáldið er að segja okkur að umhverfið móti manninn.


Við sem eigum ættir okkar að rekja vestur í Aðalvík berum örugglega með einum eða öðrum hætti ákveðið svipmót af þessu vestfirska umhverfi, arfleið kynslóðanna.


Föður mínum séra Hirti Hjartarsyni frá Aðalvík var hugleikið hvernig kenna mætti manninn.


Í predikunum hans má oft finna þessa setingu: Hvernig kennir maður manninn? Það fer vel á því að gera það einnig núna úr þessum ræðustól sem hann predikaði oft úr í afleysingum fyrir sr. Árna Berg Sigurbjörnsson.


Í huga hans var ættin mikilvægur þáttur, frændur og frænkur, framganga, afrek þeirra og sigrar – jú og mótlætið líka. Hann vildi þekkja frændur sína og hann naut þess að vera í návist þeirra og taldi marga þeirra til vina sinna.


Hvað ættgöfgi varðar, var að hans mati ekki hægt að vera betur ættaður en að eiga ætt sína að rekja til Aðalvíkur.


Þeir bræður veltu oft fyrir sér uppruna ættarinnar í Aðalvík og seildust langt í að mæra ættina. Bróðir hans Finnbjörn Hjartarson hafði mjög frumlega skoðun á þessu. Hann hélt því fram að við værum af hinni týndu ættkvísl gyðinga,
Benjamítum. Ættkvíslin sem samkvæmt biblíunni fór í vestur og engar frekari sögur eru af. Ættin hafi endað ferð sína á þessu „extremo angulo,“ eða síðasta horninu.


Hann var þá að vísa til útlitsins, sérstaklega kvennanna. Þessara háu dökkhærðu kvenna, hrokkinhærðar og með brún augu.


Það var föður mínum afar kær minnig að hann messaði í fyrsta skipti árið 1989 á Stað í Aðalvík um það bil sem hann kláraði nám í guðfræði 59 ára gamall. Við það tækifæri söng blandaður þrjátíu manna kór við messuna, allt skyldfólk
og afkomendur undir stjórn frænda og vinar hans Ingimars Guðmundssonar í Þverdal.


Einhver orð hafði Ingimar um að hann væri fyrsti presturinn í þessari ætt frá Aðalvík.


Helsti áhrifavaldur í lífi föður míns var afi hans Finnbjörn Hermannsson verslunarmaður á Ísafirði lengst af hjá Ásgeirsverslun og síðar verslunarstjóri á Hesteyri hjá Hinu sameinaða verslunarfélagi.


Hann var sonur hjónanna Hermanns Sigurðssonar bónda á Læk, hagleiksmanns með tré og járn, og eiginkonu hans Guðrúnar Finnbjarnardóttur. Hún var dóttir ættarhöfðingjans Finnbjörns Gestssonar á Sæbóli. Hann var sagður glæsimenni og vel látinn, söngmaður góður og hefur söng- og tónlistaráhugi fylgt niðjum hans, segir í bókinni Sléttuhreppur.


Önnur börn þeirra hjóna voru Guðrún Elín gift Abraham Jónassyni, bónda á Læk. Ingibjörg Katrín, gift fyrst Vilhjálmi Magnússyni útvegsbónda á Sæbóli. Síðari maður hennar var Sigurður Alexander Finnbogason, bóndi á Sæbóli
(Siggi Alli). Ingveldur Ólína gift Birni Björnssyni, verkstjóra hjá Kaupfélaginu á Ísafirði. Guðmundur Sigurjón Lúther útvegsbóndi á Sæbóli, kvæntur Margréti Þorbergsdóttur frá Miðvík og Jón Sigfús bóndi á Sæbóli og Læk, kvæntur
Elínóru Guðbjartsdóttur. Samkvæmt Íslendingabók áttu þau einnig Sigurjón, Halldór og Ástu sem létust á barnsaldri.

 

Fyrstu persónulegu kynni við frændfólk frá Aðalvík tengi ég skólasystur minni og vinkonu allt frá menntaskólaárunum okkar, Elinóru Ingu Sigurðardóttur og eiginmanni hennar Júlíusi Valssyni. Elinóra er barnabarn Jóns Sigfúsar
Hermannssonar.

 

Í gegnum kynni okkar og vinskap hitti ég fyrst langafabróður minn Jón Sigfús Hermannsson en milli þeirra bræðra var 16 ára aldursmunur. Ég hafði aðeins hitt langafa minn einu sinni. Það var þegar hann var áttræður 1958. Þeir voru í
minningunni sláandi líkir. Síðustu árin dvaldi hann um tíma á öldrunarlækningadeild Landspítalans þar sem konan mín vann. Hún hafði gaman af að brýna hjúkrunarfólkið um að sinna nú honum Jóni vel. Hann væri langa, langafa bróðir barnanna hennar.


Jón Sigfús bjó að Sogaveginum í húsinu, sem hann byggði að hluta úr rekaviði að vestan. Hann flutti með sér virkið þegar hann fór suður líklega meira og minna tilsniðið. Þetta er lýsandi myndbirting þeirrar elju og dugnaðar sem einkennir hans fólk.


Síðar kynntist ég foreldrum Elinóru Ingu, Sigurði Jónssyni og Dýrfinnu Sigurjónsdóttur en nefna má að móðir mín og Dýrfinna eru þremenningar.


Það er gaman að minnast þess að hún tók ljósmóðurprófið á móður minni þegar ég var í móðurkviði, þannig að segja má að ég sé „sveins stykkið hennar.“


Allt er þetta vel gert, gott og duglegt fólk sem skarað hefur fram úr á ýmsum sviðum. Það er gott að vera í návist þess og maður gleðst yfir að eiga frændsemi við það.


Skáldið sagði að umhverfið móti okkur.


Ef við skoðum ljóð Sléttuhreppinga, „Aðalvík,“ þá er ljóðahöfundi efst í huga lognið, sólsetrið, töframyndir náttúrunnar, blómin og fegurðin í Aðalvík - sumarið.

 

Um ískaldar vetrarnætur, þokuna og einangrun hefur hann enginn orð. Hann minnist aðeins á hið fagra, blíða og eftirsóknarverða en lætur hitt lönd og leið. Það hefur verið mikilvægur eiginleiki til þess að lifa af við erfið skilyrði.

 

Við skulum minnast þess að óblíð náttúran markaði djúp spor í mannlífið. Vafalaust hefur hún líka hert það fólk sem þar lifði af erfiða lífsbaráttu. Sagan af Snorra á Húsafelli og dvöl hans á Stað í Aðalvík á 18. öld, þessu nafnkunna „harðindaplássi“ eins og Brynjólfur Sveinsson biskup nefnir það er lýsandi mynd af bágum kjörum fólksins allt fram á 20. öldina.


Þrautseigja og dugnaður var gott veganesti inn í framtíðina. Hið nýja Ísland kallaði á duglegt fólk í þéttari byggðir. Sjálfsþurftarbúskapurinn leið undir lok. Sléttuhreppsbúar svöruðu þessu kalli en tryggð þeirra við sveitina er til
fyrirmyndar og vitnar um dugnað og ræktarsemi við arfleifðina og það sem var.

 

Í fyrra skiptið fórum við hjón ásamt móður minni, sem fylgdarmenn föður míns árið 1999. Hann var að jarðsetja frænda sinn og vin Vilhjálm H Vilhjálmsson stórkaupmann. Við fórum með Fagranesinu til Aðalvíkur og vorum ferjuð í land við Sæból. Í lendingu vorum við minnt á hversu veður getur breyst fyrirvaralaust. Norðvestan vindhviða feykti í lendingu á haf út hluta af byggingarefni sem Sveinn Guðmundsson frá Þverdal átti. Við fengum inni í Jónshúsi þessa daga hjá Sigríði Helgu og Guðmundi sem þar voru þá húsráðendur.

 

Maður fann vel tenginguna við staðinn og ættina. Afkomendur Vilhjálms í Steinhúsinu. Heimsókn til Ásgeirs Jónssonar skókaupmanns í Kópavogi. Ég minnist sérstaklega orða hans af hverju byggðin lagðist af: „Það fóru allir sem gátu þegar við fórum að fá peninga fyrir vinnu okkar.“


Þegar við komum til systranna í Bólinu, þar sem þær voru að fjarlægja rætur hvanna úr grassverðinum var sagt: „Er ekki Sveinn Hjartarson kominn aftur til Aðalvíkur.“ Ég er skírður í höfuðið á Sveini Hjartarsyni, föðurbróður mínum sem lést ungur að árum, en hann hafði dvalið á sumrin í Aðalvík fyrir 1942. Þetta þótti mér vænt um og tengdi mig staðnum enn frekar.


Síðar átti ég þess kost í júlí árið 2011 ásamt skaftfellskum göngufélögum að heimsækja Aðalvík. Við gengum fjöruna frá Sæbóli að Látrum (fyrir Pokasund niður keðjuna), upp á Barðann og næsta nágrenni og að lokum frá Sæbóli yfir á
Hesteyri. Í ferðalok aðstoðuðum við að ganga frá drenlögn við Stað. Hugtakið að vera vel fjallgengur sem sagt var um Aðalvíkinga fékk nýja merkingu í huga mínum eftir þessa ferð.


Við gistum í Hjálmfríðarbóli hjá Gylfa Kristinssyni og Jónínu Völu Kristinsdóttur. Við áttum góða daga í frábæru veðri alla dagana.


Það gerir þessa ferð enn eftirminnilegri að foreldrar mínir og eiginkona fylgdu með vestur á Ísafjörð og biðu þar á meðan farið var með gönguhópnum yfir í Aðalvík. Þetta var síðasta skipti sem ég fór með föður mínum vestur. Hann treysti sér ekki lengra, en hugurinn bar hann yfir Djúpið.

 

Faðir minn var alinn upp á Ísafirði. Hann bjó á Skipagötu 7 sem var tíðum viðkomustaður frændfólks frá Aðalvík. Langamma mín hét Elísabet Guðný Jóelsdóttir. Þeirra börn voru: Sigurður, Jón Hjörtur afi minn, Margrét og Árni.

 

Systkini föður míns eru: Hermann, Kolbrún, Finnbjörn, Matthías, Elísabet og Sveingerður og Sveinn sem lést í æsku 1942, eins og áður sagði. Samfeðra eru Margrét og Nína.


Ég hóf þetta tal á að velta því upp hvernig maður kennir manninn: Augljóslega mótar umhverfið hann að stórum hluta. Máltækið segir að fjórðungi bregði til fósturs. Í þeim efnum kemur að fjölskyldunni og ættinni og frændseminni þegar einstaklingurinn leitast við að þekkja sjálfan sig. Það hefur verið mér mikilsvirði að vita af þessum tengslum við ætt mína fyrir vestan.

 

Ég þakka áheyrnina og bið ykkur guðs blessunar.