Loading...

Ferðast um friðlandið

Ferðast um friðlandið

Um friðlandið gilda reglur friðlýsingar og lög um náttúruvernd. Á undirsíðum má finna upplýsingar um ferðalög snemmsumars, viðmiðunarreglur um refaskoðun og tilmæli til ferðaþjónustuaðilaNánari upplýsingar eru á vef Umhverfisstofnunar.

Hvernig má fara um friðlandið?

Samkvæmt friðlýsingu er gangandi fólki heimilt að fara um svæðið og takmarkar það almannarétt að nokkru leiti. Það er t.d. ekki heimild í friðlýsingunni til að fara ríðandi eða hjólandi. Umhverfisstofnun getur sett nánari reglur um umferð um friðlandið. (4. gr. friðlýsingar)

Ferðamenn skulu fara eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum. (17. gr. laga um náttúruvernd)

Ferðamenn eru hvattir til að sleppa því að nota göngustafi og gæta þess hvernig og hvar þeir eru notaðir ef ekki er hjá því komist. (tilmæli til ferðaþjónustuaðila)

Mest allt land innan friðlandsins er eignarland. Ferðamenn eiga að sýna landeigendum fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum þeirra varðandi ferð um landið. Fólk í húsum sínum á rétt til friðhelgi einkalífs og ekki á t.d. að leggjast á glugga húsa. (17. gr. laga um náttúruvernd)

Tilkynningarskylda

Öll ferðalög um svæðið frá 15. apríl til 15. júní eru tilkynningaskyld til Umhverfisstofnunar. (6. gr. friðlýsingar)

Sími 591 2000 (biðja skal um Hornstrandastofu) eða netfang hornstrandir@umhverfisstofnun.is 

Hvar má tjalda?

Á flestum svæðum innan friðlandsins hafa verið útbúin tjaldstæði. Flest tjaldstæðanna eru búin kömrum en í Höfn í Hornvík, Látravík og Bolungarvík eru vatnssalerni. Rennandi vatn má finna við flest tjaldstæði.

Ferðamönnum ber að tjalda á tjaldstæðum sé slíkt til staðar á jörð eða í næsta nágrenni hennar. (23. gr. laga um náttúruvernd)

Gróður innan friðlands er viðkvæmur og skal gengið um þannig að lífríki sé ekki spillt, sérstaka aðgát skal hafa á tjaldstæðum. Óheimilt er að kveikja í bálkesti á tjaldstæðum. Ekki má flytja rekavið inn á tjaldstæði og sé grjót notað til að fergja tjöld skal það fjarlægt af tjaldstæðinu þegar tjöld eru tekin niður. (4. gr. friðlýsingar og 17. og 28. gr. laga um náttúruvernd)

Óheimilt er að skilja eftir rusl eða úrgang á tjaldstæðum. (17. gr. laga um náttúrvernd)

Vélsleðar og önnur vélknúin farartæki

Umferð vélknúinna farartækja utan vega og merktra slóða er bönnuð. Hægt er að sækja um undanþágu til Umhverfisstofnunar, t.d. til að fara á vélsleðum þegar nægur snjór er. (2. gr. friðlýsingar)

Veiðar, eggjataka og aðrar hlunnindanytjar

Stærstur hluti friðlandins er eignarland. Leyfi landeiganda, sem í hlut á, þarf til allra nytja. Jafnframt þarf leyfi Umhverfisstofnunar ef ekki eru hefðbundnar nytjar að ræða. (2. gr. friðlýsingar)

Meðferð skotvopna

Leyfi sýslumanns þarf til meðferðar skotvopna yfir ferðamannatímann, júní til september, og utan þess tíma er hún einungis heimil landeigendum til hefðbundina nytja. (3. gr. friðlýsingar)

 

Nánari upplýsingar eru á vef Umhverfisstofnunar

 

Kort Umhverfisstofnunnar af Hornstrandafriðlandi með tjaldstæðum og helstu gönguleiðum