Loading...

Auglýsing um friðland á Hornströndum 13. ágúst 1985

Kort af friðlandinu
Kort af friðlandinu

Hornstrandir

Stjórnartíðindi B, nr. 332/1985.

Auglýsing um friðland á Hornströndum. 

Samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd hefur [Umhverfisstofnun] fyrir sitt leyti ákveðið að friðlýsa svæðið norðvestan Skorarheiðar í Norður- Ísafjarðarsýslu, og er svæðið friðland.

Mörk svæðisins eru þessi:
Úr botni Hrafnsfjarðar um Skorarheiði í botn Furufjarðar. Mörkin fylgja Skorará frá ósi og í Skorarvatn. Þaðan liggja þau meðfram suðurströnd vatnsins, en síðan í beina línu úr suðausturhluta þess og í upptök þeirrar kvíslar, sem næst er vatninu og fellur í Furufjarðarós. Miðast mörkin við hugsaða línu 200 m fyrir sunnan kvíslina og síðan ámóta vegalengd sunnan Furufjarðaróss allt til sjávar í Furufjörð.

Reglur þessar gilda um svæðið:

  1. Mannvirkjagerð öll, jarðrask og önnur breyting á landi, svo og undan landi allt að 60 föðmum (115 m) frá stórstraumsfjörumáli, er háð leyfi [Umhverfisstofnunar].
  2. Umferð vélknúinna farartæka utan vega og merktra slóða er bönnuð, nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.
  3. Leyfi landeigenda, sem í hlut á, þarf til allra veiða, eggjatöku og annarra hlunnindanytja á svæðinu. Leyfi [Umhverfisstofnunar] þarf ef eigi er um að ræða hefðbundnar nytjar. Um netaveiði í ósum straumvatna gilda ákvæði laga um lax-og silungsveiði nr. 76/1970, sbr. einkum VI. kafla.
    Hvers konar meðferð skotvopna er öllum bönnuð nema samkvæmt sérstakri heimild sýslumanns, mánuðina júní til september og utan þess tíma einungis heimil landeigendum til hefðbundinna nytja. 
  4. Gangandi fólki er heimil för um svæðið. Þó er skylt að ganga þannig um að ekki sé spillt lífríki, jarðmyndunum og mannvirkjum. [Umhverfisstofnun] setur nánari reglur viðvíkjandi umferð um hið friðlýsta svæði.
  5. [Umhverfisstofnun] og aðrar stofnanir, sem í hlut eiga, skulu stuðla að vernd menningarminja, gera greiðfærar gamlar götur og viðhalda vörðum.
  6. Bannað er að beita búpeningi á friðlandið.
  7. Á tímabilinu 15. apríl til 15. júní ár hvert þarf að tilkynna [Umhverfisstofnun] um ferðalög um svæðið. Þetta ákvæði tekur þó ekki til ferða landeigenda.
  8. [Umhverfisstofnun] setur nánari reglur um afnot landeigenda af eignum sínum á hinu friðlýsta svæði.
  9. [Umhverfisstofnun] og Landeigendafélag Sléttu-og Grunnavíkurhrepps tilnefna hvort um sig þrjá menn í samstarfsnefnd um málefni friðlandsins.

Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi [Umhverfisstofnunar] eða þess sem fer með umboð stofnunarinnar.

Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum laga um náttúruvernd nr. 47/1971.

Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni, sem tekur gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. Jafnframt er felld úr gildi auglýsing nr. 44/1985 um friðland á Hornströndum.

Menntamálaráðuneytið, 13. ágúst 1985.

Ragnhildur Helgadóttir

_________________
Runólfur Þórarinsson