Loading...

Hornvík

Hornbjarg

Frá tjaldstæðinu í Höfn er stefnan tekin á Kýrskarð. Þegar að Hafnarós er komið er vaðið yfir Kýrvaðið og haldið út með víkinni að Grænanesi. Á Grænanesi er Steinþórsstandur og við hann fossinn Drífandi. Haldið er áfram út víkina og framhjá Skipakletti. Eftir fjörunni er haldið út fyrir Stígshús og Frímannshús og þá stefnan tekin á gönguleiðina upp í Ystadal. Þegar upp í Ystadal er komið má ganga út á bjargið, en vara skulu menn sig á bjargbrúninni því hún getur gefið undan. Gott útsýni er yfir Hælavíkurbjarg, hinum megin í Hornvíkinni.

Gengið er eftir bjarginu að Miðfelli og haldið upp á það. Gönguleiðin upp á Miðfellið er viðkvæm og ætti að hlífa henni við stórum hópum og göngustöfum. Af Miðfelli er útsýni yfir Ystadal og Miðdal og yfir alla víkina. Farið er niður í Miðdal eftir einstigi sem liggur að Svaðaskarði. Varlega þarf að fara til að komast niður í Svaðaskarðið, því bratt er beggja vegna. Úr skarðinu liggur reipi niður á Miðdalsbreiðu sem gott er að halda sér í á niðurleið. Eftir Miðdalsbreiðunni liggur gangan að Miðdalsgjá þar sem fygljast má með fuglinum. 

Frá Miðdalsgjá og Jörundi liggur leiðin meðfram Miðdalsvatni og er nú  um tvo kosti að velja. Halda niður Hestagötu niður á láglendið eða upp götu á Múla. Uppi á Múla má aftur velja milli kosta, þ.e. halda upp á Kálfatind (534 m) eða fara Tindahvolfin í Innstadal og halda eftir Lágbrún fram hjá Eilífstindi að Harðviðrisgjá þar sem aftur má fylgjast með bjargfuglinum. Frá Skófnabergi má halda upp í Almenningaskarð yfir í Látravík eða halda niður Innstadalinn í fjöruna.

Eilífstindur, Harðviðrisgjá, Skófnaberg og Almenningaskarð
Eilífstindur, Harðviðrisgjá, Skófnaberg og Almenningaskarð

Hvannadalur

Frá Höfn er haldið úr eftir Hafnarnesi. Yfir Tröllakamb þarf að príla upp með reipi og niður hinum megin. Haldið er svo fyrir Rekavík bak Höfn og eftir einstigi um Urðir yfir í Hvannadal.

Rekavík bak Höfn, Rekavíkurfjall, Hvannadalur og Hælavíkurbjarg
Rekavík bak Höfn, Rekavíkurfjall, Hvannadalur og Hælavíkurbjarg

Hornbjargsviti í Látravík

Frá Höfn er stefnan tekin yfir Háumelina á Kýrskarð. Þegar að Vatninu kemur skal vaðið yfir Kýrvaðið og haldið þaðan upp í Kýrskarð. Úr Kýrskarði er gengið niður að Hornbjargsvita í Látravík. 

Látravík og Hornbjargsviti séð frá Kýrskarði
Látravík og Hornbjargsviti séð frá Kýrskarði

Frá tjaldstæðinu við Hornsá má halda upp Innstadal í Almenningaskarð milli Skófnabergs og Dögunarfells. Þaðan liggur leiðin niður Stóru-Brekku og Litlu-Brekku og fyrir Blakkabás að Hornbjargsvita.

Veiðileysufjörður

Frá Höfn er gengið upp á Víðirshlíðina og stefnan tekin eftir vörðum á Hafnarskarð. Frá Hafnarskarði má fylgja vörðum nokkurn spöl og svo stíg niður Veiðileysudalinn halda skal út undir Lónhorn að tjaldstæði þar sem lendingin er.

Veiðileysufjörður
Veiðileysufjörður

Hlöðuvík og Hælavík

Frá Höfn er haldið úr eftir Hafnarnesi. Yfir Tröllakamb þarf að príla upp með reipi og niður hinum megin. Haldið er svo inn Rekavík bak Höfn og upp Rekavíkurdal í Atlaskarð. Úr Atlaskarði má líta yfir Hælavíkina þar sem Jakobína Sigurðardóttir ólst upp. Ganga má niður í Hælavíkina eða halda á Skálakamb og niður í úr honum í Skál og úr henni niður að Búðum, þaðan er stuttur gangur að tjaldstæðinu þar sem Hlöðuvíkurbærinn gamli stóð forðum.

Horft að Rekavík bak Höfn og gönguleiðina upp í Atlaskarð
Horft að Rekavík bak Höfn og gönguleiðina upp í Atlaskarð