Loading...

Gönguleiðir

Aðalvík, Sæból

Sæból

Gengið er frá Látrum með stefnu á húsið í Stakkadal. Vaða þarf Stakkadalsá rétt neðan vatns. Ánni er því næst fylgd til sjávar og haldið fyrir Mannfjall. Vaða þarf Miðvíkurósinn og er best að finna vað við bæjarrústir Neðri-Miðvíkur. Þegar yfir ósinn er komið er haldið fram eftir fjörunni og undir Hvarfnúp. Hægt er að fara Tökin og þá þarf að klífa 4 m upp til að komast í götuna, um 40 m frá Posavogi. Þegar upp er komið er auðvelt að halda sem leið liggur niður á Þverdalssand og halda eftir honum og fara á brú yfir Staðará og eftir vegi að tjaldstæðinu á Sæbóli.

Sæból, Þverdalur og Staður
Sæból, Þverdalur og Staður

Hesteyri

Frá Sæbóli er gengið eftir gamla "sýsluveginum" og farið á brú yfir Staðará. Leiðin liggur svo í gegnum Staðarlandið, fram hjá Prestbústaðnum og Staðarkirkju. Farið er upp úr Fannardal og eftir Sléttuheiði yfir Sléttuá. Farið er fyrir Nóngilsfjall niður á Hesteyrareyrar og eftir fjörunni að tjaldstæðinu fyrir neðan kirkjugarðinn á Hesteyri.

Gönguleiðin á Sléttuheiði
Gönguleiðin á Sléttuheiði

Darri

Frá Sæbóli er haldið eftir vegi fram hjá Görðum að hlíðinni upp á Tindafjall. Vegslóði liggur áleiðis upp hlíðina og eftir teinum sem kláfur var hífður á. Þegar upp er komið má finna minjar um hús. Þá er gengið eftir vegslóða sem liggur út á Darra þar sem radsjárstöðvar breta stóðu. Undirstykki frá loftvarnarbyssum, grunnar og veggir standa enn.

Leifar af ratsjárstöðinni á Darra
Leifar af ratsjárstöðinni á Darra